Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Grænlendingar hræddir við móttökur á Íslandi

03.02.2017 - 09:35
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Grænlendingar eru sumir hverjir hikandi við að koma til Íslands eftir mál Birnu Brjánsdóttur og handtökur grænlenskra sjómanna í tengslum við það, segir Inga Dóra Markussen, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins. Borið hafi á því á samfélagsmiðlum í Grænlandi að fólk sé hrætt við viðbrögðin sem það fengi og að verða litið illu auga. Hún segist hafa reynt að gera sitt til að róa fólk niður. Þetta mál hafi hins vegar sýnt berlega þörfina á því að efla og styrkja formleg samskipti milli ríkjanna.

Inga Dóra sagði á Morgunvaktinni að lengi hefði verið stefnt að því að opna sendistofu Grænlands á Íslandi þó að ekki hafi fundist fé til þess. Þetta mál hafi sýnt þörf á slíku og þar hefði áhöfnin á Polar Nanoq getað fengið stuðning sem þurfti.

Hún var beðin um að koma til hjálpar og gerði sitt til að vera með hinum skipverjunum sem lentu í þessu sorglega máli. Inga Dóra er í samskiptum við sjómennina, sem eru sumir farnir á haf út og aðrir heim. Málið hafi fallið þeim þungt. Annar tveggja skipverja, sem voru handteknir, er kominn heim til Nuuk og þar segir Inga að margir hafi tekið á móti honum en hún hefði verið svolítið hrædd við hver viðbrögðin yrðu.

 

 

annakj's picture
Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV