Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

GPS-tæki komið í sigketilinn

07.07.2012 - 19:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Vísindamenn hafa komið fyrir staðsetningartæki í sigkatli á Mýrdalsjökli, sem hljóp úr fyrir um ári síðan og flóðið hreif með sér brúna yfir Múlakvísl. Vatn er nú tekið að safnast fyrir í katlinum að nýju og tækinu er ætlað að segja til um möguleg flóð með lengri fyrirvara en áður var hægt.

GPS-tæki komið fyrir

Aðfaranótt 9. júlí í fyrra hljóp úr sigkötlum í Kötluöskju í Mýrdalsjökli. Flóð kom niður farveg Múlakvíslar og hrifsaði með sér brúna yfir ána á Mýrdalssandi. Vísindamenn hafa síðan haft auga með sigkötlunum og séð að stærsti ketillinn hefur verið að rísa og safna í sig vatni. Í vikunni var svo farið með þyrlu Landhelgisgæslunnar til þess að koma GPS-tæki fyrir í sigkatlinum.

„Það sem við erum að vona er að við getum notað hann til að fylgjast með hæðabreytingum í katlinum, og þá sérstaklega ef hann sígur mjög hratt á stuttum tíma. Það væri þá merki um að hlaup væri hafið," segir Benedikt Ófeigsson jarðeðlisfræðingur. 

Ekki prófað áður

„Ég veit ekki til þess að menn hafi prófað þetta áður, að vera með svona rauntímavöktun á katli," segir hann. „Menn vilja nú kannski ekkert vera að þvælast neitt mikið í svona kötlum. Þetta er ekkert svona eitthvað sem er auðvelt að reka þarna uppi. Það er mjög miklum erfiðleikum bundið. Við mundum aldrei geta gert þetta nema af því að við erum í sambandi við Gæsluna. Sem getur þá flogið með okkur ofan í ketilinni. En svona almennt eru menn ekkert að setja mælitæki ofan í katla, ekki svona sem menn búast við að jafnvel, hlaupi," segir hann.

Sagt til um flóð

Þetta er liður í því að auka mælingar á svæðinu svo lengja megi viðbragðstímann frá því að hlaup hefst og þangað til það kemur niður á láglendi. Hingað til hefur verið stuðst við skjálftamælingar - og vatnshæðarmælir í Múlakvísl getur sagt til um flóð um 40 mínútum áður en það er komið niður að þjóðvegi. Með GPS-mæli í sjálfum sigkatlinum standa vonir til viðbragðstíminn lengist.