Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Götuvirði efnanna 30 milljarðar á mánuði

11.10.2015 - 16:20
Mynd með færslu
 Mynd: Spanish Home Ministry
58 ára Íslendingur er talinn einn af höfuðpaurum stórtækrar fíkniefnaframleiðslu á Spáni. Hann leigði húsnæðið sem framleiðslan fór fram í. Verksmiðjan framleiddi minnst tíu tonn af kannabis á mánuði, að andvirði allt að þrjátíu milljarða króna.

Fjórir Íslendingar voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar á Spáni vegna málsins. Í spænska vefmiðlinum Murcía Today er fíkniefnaverksmiðjunni lýst sem þeirri fullkomnustu í Evrópu.

Talið er að tíu tonn af kannabis hafi verið framleidd í verksmiðjunni og flutt til Hollands í hverjum mánuði. Götuvirði efnanna er eftir því sem fréttastofa kemst næst allt að þrjátíu milljarðar.

Grunaðir höfuðpaurar málsins eru hollenskt par, og íslenskur karlmaður á sextugsaldri. Hann er skráður fyrir leigu á verksmiðjuhúsnæðinu, en samkvæmt spænskum vefmiðlum taldi eigandi hússins að þar færi fram framleiðsla og þróun á einangrunarefni. Grunur vaknaði um framleiðsluna þegar nærstödd fyrirtæki kvörtuðu undan truflunum á rafmagni.

Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að í bígerð var að gera aðra eins verksmiðju í vöruhúsi í Alicante-héraði.

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV