RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Gott samtal á hringferð RÚV um landið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
RÚV efndi til opinnar umræðu á sex stöðum á landinu um þjónustu og starfssemi Ríkisútvarpsins og hlutverk fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.

Fundargestum gafst tækifæri til að spyrja út í einstaka þætti í starfssemi Ríkisútvarpsins, koma með hugmyndir og ábendingar. Góð mæting var á fundina og gagnlegar umræður og ábendingar frá fundargestum munu nýtast vel í áframhaldandi stefnumótun og starfssemi Ríkisútvarpsins.

Líflegar umræður voru um einstaka dagskrárliði og ljóst að flestir hafa skoðun á starfssemi RÚV. Talsvert var rætt um dreifikerfið, umfang þess og hvað megi þar betur fara. Einnig var hlutfall íþróttakappleikja í dagskránni fundargestum hugleikið sem og menningarhlutverk RÚV.

Hér má sjá helstu spurningar sem fram komu á hringferð RÚV 

Það sem stendur upp úr eftir þessa fundi er á meðal annars hversu mikinn áhuga landsmenn hafa á starfssemi RÚV og láta sig hana varða. Það er ljóst að flestum þykir mjög vænt um RÚV og vilja að stofnunin haldi áfram að þróast og eflast í samráði við þjóðina. Ábendingum og hugmyndum sem fram komu á fundunum verður safnað saman og komið í viðeigandi farveg.

Fundirnir fóru fram í Reykjavík, Ísafirði, Selfossi, Akureyri, Egilsstöðum og í Borgarnesi. Góð mæting var á fundina sem voru líflegir og skemmtilegir.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri fór yfir stöðu, hlutverk og stefnu Ríkisútvarpsins í dag og til framtíðar. Freyja Dögg Frímannsdóttir svæðisstjóri RÚVAK sagði frá starfssemi RÚV á landsbyggðinni. Gísli Örn Guðmundsson forstöðumaður tæknideildar fjallaði um dreifikerfið og Gísli Einarsson sagði frá hugmyndafræði Landans, eins vinsælasta sjónvarpsþáttar landsins.

Á fyrsta málþinginu, þann 17. september sl. fluttu ennfremur erindi Ingrid Delterne, framkvæmdastjóri EBU, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Valgeir Vilhjálmsson, markaðsrannsóknarstjóri RÚV. Erindi þeirra má sjá hér að neðan, sem og pallborðsumræður.

12.10.2015 kl.15:48
Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir
Birt undir: Í umræðunni, Akureyri, Borgarnes, hringferð, Ísafjörður, landsbyggðin, málþing, rúv