Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Gosið hraðar bráðnun jökla

24.05.2011 - 13:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur telur einsýnt að öskufallið úr Grímsvötnum hraði mjög bráðnun jökla í nágrenninu . Óhemju magn af gosefnum hefur streymt upp úr Grímsvatnaeldstöðinni undanfarna daga. Stór hluti þessara efna hefur fallið sem aska á Vatnajökul og nágrenni, þar á meðal Mýrdalsjökul og Hofsjökul. Helgi segir að þetta hafi mikil áhrif á afkomu jöklanna.

„Reyndar er það háð því hvenær á árinu þetta verður. Núna er það alveg ljóst að þetta mun valda því að Vatnajökull og aðrir jöklar munu bráðna miklu miklu meira en í venjulegu ári vegna þess að þeir hafa fengið yfir sig gjósku sem veldur því að þeir drekka meiri sólgeislun í sig en ella,“ segir Helgi. Þetta sé annað árið í röð sem slíkt gerist.


„Þetta er á þeim árstíma þar sem er engin von til þess að nýsnævi hylji þessa gjósku þannig að það er framundan mikið leysingaár hjá jöklum annað árið í röð af þessum völdum,“ útskýrir Helgi. Þá séu ótaldar loftslagsbreytingar sem hafa valdið því að jöklar hér hafi minnkað mjög hratt á síðustu árum. „Þetta bætir enn í rýrnun jökla.“