Gos hefði afar víðfeðm áhrif á flug

20.08.2014 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Truflanir á flugsamgöngum á heimsvísu gætu orðið jafn víðfemar og í Eyjafjallajökulsgosi 2010 ef öskugos hæfist í Bárðarbungu, segir talsmaður ISAVIA. Öryggisreglum hafi ekki verið breytt þrátt fyrir viðamiklar rannsóknir á áhrifum ösku. Engin áhætta sé tekin.

Friðþór Eydal, talsmaður ISAVIA, segir að flugmálayfirvöld haldi vöku sinni og fylgist nákvæmlega með því sem jarðvísindamenn segja. 

„Þá er í raun ekki annað hægt að gera en að bægja flugumferð frá hættusvæðum sem verða til, t.d. ef að verður gríðarlegt öskugos svipað og við sáum í Eyjafjallajökulsgosinu. það eru í raun einu úrræðin sem menn ráða yfir," segir Friðþór. 

Þó að flugöryggisyfirvöld í Evrópu og víðar hafi lært mikið af Eyjafjallajökulsgosinu 2010 og víðtækar rannsóknir hafist á áhrifum gosösku á flugvélar þá séu þær rannsóknir ekki komnar það langt að hægt sé að breyta eldri öryggisreglum.

„Það er í rauninni ekki annað sem yfirvöld geta gert en að fara eftir ríkjandi reglum og tilmælum sérstaklega frá vísindasamfélaginu og alþjóðasamtökum í flugi. Þar vilja menn auðvitað hafa menn sem mest vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum, því það má á engan hátt stofna flugumferð eða öryggi í flæginu í nokkra hættu," segir hann. „Þannig að menn leggja mikið á sig til þess að svo verði ekki. Ég myndi segja að ef að svipaður atburður gerist að þá getum við alveg séð álíka víðfemar ráðstafanir eða truflanir eða breytingar á fluginu. Auðvitað hafa menn lært síðan 2010 þó ekki sé búið að fullnýta þá reynslu enn sem komið er."

Friðþór segir að ekki sé hægt að taka neina áhættu þegar flugsamgöngur eru annars vegar.

„Það er bara grundvallareðli þeirra," segir hann. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi