Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Google leiðir ferðamenn í Sardiníu í ógöngur

16.10.2019 - 06:40
Erlent · google · Ítalía · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: Comune di Baunei - Santa Maria N - Facebook
Bæjarstjóri Baunei á Sardiníu biðlar til ferðamanna að nota landakort upp á gamla mátann ef þeir ætla að skoða bæinn. Hann er kominn með nóg af ferðamönnum sem villast á fjallvegum eftir að hafa notast við kortaþjónustu tæknirisans Google. 

Guardian hefur eftir Salvatore Corrias, bæjarstjóra fjallaþorpsins Baunei í Ogliastra héraði, að slökkvilið og fjallabjörgunarsveitir hafi verið kallaðar út 144 sinnum síðasta árið til þess að koma föstum ferðamönnum til bjargar. Corrias segir ferðamenn óvana moldarvegum svæðisins og þeir leggi traust sitt á Google Maps kortaþjónustuna. Eftir nokkra stund átta þeir sig svo á því að þeir eru ekki lengur á veginum. 

Héraðslögreglan hefur komið upp skiltum við veginn þar sem ferðamenn eru vinsamlegast beðnir um að fylgja ekki leiðbeiningum Google Maps. Corrias ætlar einnig að efla upplýsingagjöf á samfélagsmiðlum og útvega ferðamönnum landakort á pappír. Corrias segir þetta raunverulegt vandamál. Hann segist ekki geta bannað fólki að nota kortaþjónustu Google, en hann vari fólk við því að notkun á því eigi eftir að leiða fólk í ógöngur. 

Yfirvöld í Ogliastra héraði hafa komið ábendingum til Google. Guardian hefur eftir talsmanni Google að fyrirtækið viti af vandamáli í Sardiníu þar sem ferðamenn eru afvegaleiddir. Starfsmenn leiti nú leiða til þess að vekja athygli bílstjóra á vegum á borð við þá sem eru í fjalllendi Sardiníu.

SONY DSC
 Mynd: Wikimedia Commons
Baunei í Sardiníu.
Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV