Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gömul brot en ný birtingamynd

09.12.2019 - 21:04
Mynd: Kastljós / Rúv
„Við sjáum að það er talsverð umferð á Íslandi af þeim sem eru að skoða kynferðisofbeldi gegn börnum á netinu,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Stafrænt kynferðisofbeldi gegn börnum hefur aukist með stórauknu aðgengi barna og unglinga að netinu. Bent er á að auka þurfi forvarnir og fræðslu stórlega. 

Upplýsingar sem berast lögregluyfirvöldum hér á landi annars staðar af Norðurlöndunum sýna þetta, sagði Sigríður Björk í Kastljósi kvöldsins. Það verði að leggja áherslu á þetta. Þá sé alþjóðlegt samstarf í þessum málaflokki, líkt og í öllum netbrotum, gríðarlega mikilvægt. 

Missum stjórn á myndefninu um leið og það fer á netið

Kolbrún Benediktsdóttir varasaksóknari segir að það þurfi að fræða börn um hætturnar sem leynast á netinu. Það sé margt hægt að gera í forvörnum. Til að mynda séu lögreglulið á Norðurlöndunum með virkt forvarnarstarf og til að mynda með fræðslu í skólum. Þetta sé þó auðvitað samvinnuverkefni og ekki bara á borði lögreglu. 

Sigríður Björk segir að foreldrar þurfi til að mynda að vera meðvitaðir um hvaða myndir þeir setja af börnunum sínum á netið, segir Sigríður Björk. „Við missum í rauninni stjórn á myndefninu um leið og það er komið á netið,“ segir hún. „Þetta snýst aftur um fræðslu. Við þurfum að standa okkur betur í þessum afbrotavörnum; Að vera ekki alltaf að bregðast við eftir á heldur líka fyrirfram.“ 

Kolbrún bendir á að börnin setji líka sjálf myndir á netið. Foreldrar verði því bæði að vera meðvitaðir um hvað þeir setja á netið af börnunum sínum og fylgjast með því hvað börnin sjálf eru að gera og setja á netið. 

Brotamennirnir, líkt og aðrir, á netinu

Kolbrún segir að þetta séu gömul brot með nýja birtingamynd. Nú lifum við öll í stafrænum heimi og stór hluti af lífi okkar fari fram á netinu í dag. Brotamennirnir eru líka þar, segir hún. Þá sé umfangið meira. Áður hafi til að mynda sá sem hafði í fórum sínum hundruð mynda vera með mikið magn af barnaníðsefni í sinni vörslu. Í dag séu dæmi á Norðurlöndunum um menn með milljónir mynda og myndskeiða af grófu efni í sinni vörslu. 

Hún segir jafnframt að það þurfi að skoða refsirammann. Hér á landi falli framleiðsla, varsla, dreifing og það að skoða barnaníðsefni, allt undir sama ákvæðið. Refsingin sé í raun aðeins sektir eða fangelsi að tveimur árum ef brotið er stórfellt. „Það gefur auðvitað auga leið að ef það kæmi upp hjá okkur, og bara þegar það kemur upp svona mál hjá okkur, af þessari stærðargráðu eins og við erum að sjá á Norðurlöndunum, einhverjar milljónir af myndskeiðum og myndböndum, þá er það ekki mikið.“ Það þurfi að skoða þetta núna í staðinn fyrir að bregðast við eftir á.