Golden State minnkaði muninn gegn Toronto

epa07640102 Toronto Raptors center Marc Gasol (R) of Spain shoots as Golden State Warriors center DeMarcus Cousins (2-R) defends during the second half of the NBA Finals basketball game five between the Golden State Warriors and the Toronto Raptors at Scotiabank Arena in Toronto, Canada, 10 June 2019.  EPA-EFE/WARREN TODA SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Golden State minnkaði muninn gegn Toronto

11.06.2019 - 04:10
Golden State Warriors minnkaði muninn í úrslitaeinvígi NBA deildarinnar í körfubolta með 106-105 sigri gegn Toronto Raptors á útivelli í nótt. Gestirnir leiddu nánast allan leikinn, en heimamenn náðu sex stiga forystu þegar lítið var eftir. Það dugði þó ekki til því Golden State átti góðan endasprett.

Kevin Durant sneri aftur í lið Golden State eftir meiðsli sem héldu honum frá níu síðustu leikjum Golden State í úrslitakeppninni. Hann byrjaði leikinn vel, hitti úr öllum þriggja stiga skotum sínum og skoraði alls 11 stig í fyrsta leikhluta. Þegar rúmar tvær mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta meiddist hann þegar hann steig hægri fæti niður í gólfið. Hann settist niður og hélt um kálfann sem hefur haldið honum frá vellinum. Án hans tókst Golden State þó að halda forystu sinni, og komst mest í 14 stiga forskot í þriðja leikhluta.

Toronto er aðeins einum leik frá sínum fyrsta meistaratitli, og leit allt út fyrir að þeir myndu ná að tryggja sér hann þegar lítið var eftir af leiknum. Liðið náði sex stiga forskoti, 103-97, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Golden State skoraði þá níu stig í röð og komst þannig þremur stigum yfir þegar innan við mínúta var eftir. Kyle Lowry minnkaði muninn þegar hálf mínúta var eftir, og Golden State missti boltann í síðustu sókn sinni. Lowry reyndi fyrir sér fyrir utan þriggja stiga línuna áður en leiknum lauk en Draymond Green varði skotið hans.

Stephen Curry skoraði 31 stig, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar og Klay Thompson skoraði 26 stig. DeMarcus Cousins kom inn af bekknum og skoraði 14 stig, en átti erfitt uppdráttar í lokaleikhlutanum og braut nokkrum sinnum af sér þegar Golden State gat tryggt sér sigur.

Kawhi Leonard skoraði 26 stig fyrir Toronto og tók 12 fráköst. Kyle Lowry kom næstur honum með 18 stig og Marc Gasol skoraði 17 stig og tók 8 fráköst. 
Staðan í einvígi liðanna er 3-2 fyrir Toronto, og eigast liðin við í sjötta sinn á heimavelli Golden State aðfaranótt föstudags.