Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Góður þristur!

Mynd með færslu
 Mynd: Iceland Airwaves

Góður þristur!

05.10.2017 - 10:17

Höfundar

Í þætti kvöldsins heyrum við upptökur Rásar 2 frá síðustu Airwaves hátíð

Senn líður að næstu Airwaves hátíð!

Rás 2 hefur verið virkur áttakandi í Iceland Airwaves allt frá upphafi og frá árinu 2000 höfum við hljóðritað heilan haug af tónleikum á hátíðinni, oft um 30 tónleika á ári.

Árið í fyrra var engin undantekning og í Konsert í kvöld ætlum við að bjóða upp á þrenna tónleika frá í fyrra; RuGl og Kevin Morby í Vodafone höllinni og Emmsjé Gauta á NASA.

Rugl er dúett, tvær vinkonur úr Vesturbænum sem heita Ragnheiður María Benediktsdóttir og Guðlaug Fríða Helgadóttir Folkmann.

RuGl kom fyrst fram opinberlega í söngkeppninni Rófunni í Hagaskóla í lok janúar 2016 og lenti þar í öðru sæti. Í apríl á sama ári tók hljómsveitin þátt í Músíktilraunum. Hún komst þar í úrslit og fékk góða dóma. Eftir það hefur hljómsveitin spilað hér og þar, hitaði meðal annars upp á lokatónleikum Risaeðlunnar í Gamla bíói í maí 2016.

Kevin Robert Morby fæddist 2. Apríl árið 1988 í Kansas City. Hann var 10 ára þegar hann byrjaði að spila á gítar og stofnaði hljómsveitina Creepy Aliens. 17 ára gamall kláraði hann menntó og flutti frá Kansas til Brooklyn í New York og vann fyrir sér sem hjólasendill og við afgreiðslu á kaffihúsum.

Hann spilaði á bassa með folk-rokk -hljómsvetinni Woods og stofnaði svo aðra hljomsveit, Babies, þar sem hann söng og spilaði á gítar. Babies gerði tvær plötur og Woods fjórar.

Hann sendi svo frá sér fyrstu sólóplötuna 2013 og í dag eru þær orðnar fjórar. Kevin Morby þykir nokkuð góður og minnir um margt á söngvaskáldin góðu, Dylan og Leonard Cohen - amk. stundum. Nýjasta platan (City music) kom út í sumar.

Kevin Morby spilaði i Valsheimilinu á Hlíðarenda í fyrra á undan PJ Harvey. Með honum er flott stelpa sem spilar á gítar, þeas hún er flottur gítarleikari, hún heitir Meg Duffy. Cyrus Gengras spilar á bassa og Nick Kinsey á trommur.

Þriðji og síðasti "tónleikur" kvöldsins frá Airwaves í fyrra er Emmsjé Gauti á NASA.

Gauti hefur verið í fararbroddi íslensku rappsenunnar undanfarin ár, búinn að senda frá sér fjórar stórar plötur; Bara ég (2011), Þeyr (2013) og tvær plötur í fyrra; Vagg og Velta og 17. Nóvember.

Gauti hefur líka verið duglegur að gera sniðug myndbönd  og það síðasta kom núna fyrir stuttu við nýtt lag sem heitir Hógvær.

Konsert er á dagskrá Rásar 2 á fimmtudagskvöldum kl. 22.05

Umsjón: Ólafur Páll Gunnarsson
[email protected]

Tengdar fréttir

Tónlist

Konsert með Clickhaze og Bellatrix

Tónlist

Sigur Rós í Laugardalshöll 2005

Tónlist

Mammút og Árstíðir og Paul Simon!