Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Goðsögn í popptónlistarheiminum á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd:

Goðsögn í popptónlistarheiminum á Íslandi

16.07.2013 - 20:20
Einn af þekktustu lagahöfundum diskó- og popptímabilsins, Nile Rodgers kemur fram í Hörpu annað kvöld. Hann hefur unnið með listamönnum á borð við David Bowie og Madonnu, og nú síðast með Daft Punk. Færri vita hins vegar að hann spilaði hér á landi fyrir fjörtíu árum.

Rodgers er goðsögn í tónlistarheiminum, það verður ekki annað sagt. Hann stofnaði diskósveitina Chic fyrir þrjátíu og fimm árum með félaga sínum Bernard Edwards. Lagið le Freak varð einn af þeirra stærstu smellum. „Ég hef svo gaman af þessu. Ég bý enn yfir orkunni sem ég hafði þegar ég samdi minn fyrsta smell og ég nýti þessa sömu orku þegar ég fer í stúdíóið núna,“ segir Rodgers.  

Rodgers sneri sér að því að semja lög og stjórna upptökum fyrir heimsþekkta listamenn á borð við Dionu Ross, David Bowie, Madonnu og Duran Duran. Lög eftir hann og plötur sem hann stjórnaði framleiðslu á, hafa selst í tugum milljóna eintaka. En eitt af fyrstu skrefum hans á tónlistarferlinum var stigið á sviði í Keflavík. „Ég spilaði fyrst á Íslandi árið 1973, á herstöð, og á þeim tíma spilaði ég bara lög eftir aðra. Mig langaði alltaf að flytja frumsamda tónlist. Nú fæ ég að koma aftur, fjörutíu árum síðar, og hvert einasta lag sem ég flyt er eftir sjálfan mig og við gætum spilað í fimm klukkutíma ef við vildum.“ 

Hann er enn að búa til tónlist sem selst í bílförmum. Nú síðast sumarsmellinn Get Lucky með frönsku sveitinni Daft Punk. „Ég er enn steinhissa. Lagið er ekki líkt neinni annarri tónlist sem hljómar í útvarpinu og það er gott fyrir mig því þannig hefur það alltaf verið hjá mér,“ segir Rodgers.