Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Góðir þjóðgarðar skila miklum arði

01.03.2016 - 16:03
Þjórsárver - Mynd: Skjáskot / RÚV
Finnar reka 38 þjóðgarða og á málþingi um helgina í Reykjavík kom fram að þeir fjármunir sem finnska ríkið leggur til þeirra skila sér tífalt til baka. Skoðanakönnun sem gerð var á Íslandi á síðasta ári sýnir að meirihluti kjósenda allra flokka nema Framsóknarflokksins styðja þá hugmynd að miðhálendi Íslands verði gert að þjóðgarði. Náttúruverndarsamtök Íslands og samtökin Landvernd ásamt hópi sem kallar sig Gætum garðsins hafa sameinað krafta sína á baráttu fyrir þessu málefni.

Hugmyndin um miðhálendisþjóðgarð er ekki ný en samtökin sem áðan voru nefnd hafa ákveðið að heyja skipulega sameiginlega baráttu fyrir þjóðgarði á mið hálendinu, styrkt af fé sem tónleikar Bjarkar Guðmundsdóttur árið 2014 skiluðu og framlögum frá Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar.  Þótt samtökin hafi ekki lagt niður fyrir sér öll smáatriði í  uppbyggingu þjóðgarðsins liggur landfræðileg afmörkun hans nokkuð ljóst fyrir segir Snorri Baldursson formaður Landverndar og þjóðgarðsvörður Vatnajökulsþjóðgarðs í tímabundnu leyfi frá störfum.   Miðað yrði við mörk lands í einkaeign og afréttarlanda. Snorri gerir ráð fyrir að samstaða sé um að ef þjóðgarður verður að veruleika verði hann byggður upp með líkum hætti og Vatnajökulsþjóðgarður, með lágmarksuppbyggingu mannvirkja innan hans en að þjónustumiðstöðvar yrðu frekar á jöðrunum utan hans. Gistiskálar sem þar eru verði reknir þar áfram, beit verði áfram leyfð, þó með sjálfbærni að leiðarljósi, og ekki verði lagðir malbikaðir upphleyptir vegir.  Í stjórnsýslu verði tryggð aðkoma þeirra sem hagsmuna eiga að gæta við nýtingu svæðisins. Varðandi raflínulögn um Sprengisand segir hann samstöðu um það að loftlínur um Sprengisand komi ekki til greina, lágmarkskrafa sé að raflínur verði lagðar í jörð um allt þjóðgarðssvæðið. Snorri felst á það að vandi þjóðgarða á Íslandi felist í því að þeir séu fjársveltar stofnanir sem standi ekki undir nafni miðað við það sem best er gert erlendis og það gildi um náttúruvernd almennt. Vandinn felist ekki síst í fráleitri stjórnsýslu þar sem 8 stofnanir sem heyra undir 3 ráðuneyti fari með málefni lands í eigun ríkisins.
 Miðhálendið sé einstakt í heiminum, hvergi sé hægt að sjá nánast öll mótunaröfl náttúrunnar að verki með líkum hætti, eld, ís jökulvötn sem fæði svifþörunga þegar þau streyma í sjó fram.  Þessi verðmæti þurfi að vernda um leið og tryggt sé aðgengi ferðafólks og útivistarfólks ogh víðtæk fræðsla. Rannsóknagildi miðhálendisins eitt og sér feli sér þungvæg rök fyrir verndun svæðisins. Spegillinn tók ítarlegt viðtal við Snorra Baldursson sem hlusta má á hér.

 

 

 

 

 

jongk's picture
Jón Guðni Kristjánsson
Fréttastofa RÚV