Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Góð pressa sem fylgir því að leika Ellý

Mynd: RÚV / RÚV

Góð pressa sem fylgir því að leika Ellý

17.03.2017 - 15:30

Höfundar

Nýr söngleikur um Ellý Vilhjálms í leikstjórn Gísla Arnar Garðarsonar verður frumsýndur í Borgarleikhúsinu á laugardag. Katrín Halldóra Sigurðardóttir, leikur titilhlutverkið, segir augljóst að það skipti fólk máli hvernig Ellý sé túlkuð á sviði.

Gísli Örn segist hafa viljað gera söngleik um Ellý sem virðingarvott við hana og aðra tónlistarmenn sem ruddu brautina á sjöunda áratugnum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gísli Örn Garðarsson, leikstjóri sýningarinnar.

„Við eigum þessu fólki ótrúlega margt að þakka. Það er gefandi og hollt að fara inn í ævi þessa fólks og hvað þau þurftu að ganga í gegnum til að ná því sem þau náðu. Þetta minnir mann á að það er ekkert sjálfsagt að við erum hérna. Það er þessu fólki að þakka og þess vegna finnst mér mikilvægt að fjalla um það og rifja upp hvernig þetta var.“ 

Datt í lukkupottinn þegar hann fann Katrínu

Gísli kveðst hafa dottið í lukkupottinn þegar hann kom auga á Katrínu Halldóru, en hún setti upp litla sýningu um Ellý þegar hún var í leikaranámi í Listaháskóla Íslands. 

„Það var allt tilbúið að gera sjónvarpsþátt sem átti að heita Leitin að Ellý. Þá datt ég inn í Listaháskóla og hitti Kötu þar sem hún kom fram og þá var þetta engin spurning lengur um að ég væri búinn að finna Ellý.“ Katrín Halldóra hefur verið aðdáandi Ellýjar Vilhjálms lengi og segir að mörgu að huga til að koma henni til skila.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Halldóra Sigurðardóttir hefur lengi verið aðdáandi Ellýjar.

„Söngurinn er svo stór partur af þessu. Við syngjum ekki eins og ég þarf að stúdera hennar söng, hún túlkar allt svo fágað og flott. Það er glíman mín,að sjá til þess að hún komi til með að vera á sviðinu en ekki ég.“ 

Apasmygl og dramatík

Katrín segir að Ellý hafi verið skemmtilega uppátækjasöm og óútreiknanleg, til dæmis þegar hún smyglaði apa til landsins.„En hún átti líka alveg sínar dramatísku hliðar. Hún var þrígift og það voru ástir og átök í henni líka. Ég upplifi alveg pressu frá fólki sem heldur mikið upp á hana sem vill ekki að þetta verði eitthvað bull og maður sjúski hana. Þetta er pressa en góð pressa.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Halldóra í hlutverki Ellýjar og Björgvin Franz Gíslason í hlutverki Ragga Bjarna.

Gísli segir æfingatímabilið hafa verið þrælskemmtilegt og hann langi helst ekkert til að stíga út úr heimi sýningarinnar.

„Mig langar bara að vera hér árið 1963 og njóta þess án símanna og alls í þessari geggjuðu tónlist og með þessu stórkostlega fólki sem ég er með hérna á sviðinu.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hulunni svipt af Ellý

Menningarefni

Varpa nýju ljósi á ævi Ellýjar Vilhjálms

Mannlíf

Api Ellýjar fundinn