GMR bætir mengunarvarnir

23.05.2016 - 14:07
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - Rúv
Málmendurvinnslan GMR á Grundartanga hefur unnið að úrbótum á mengunarvörnum undanfarna mánuði og var vinna við úrlausn þessara frávika þegar komin af stað þegar bréf Umhverfisstofnunar barst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá GMR.

Fram kom í fréttum RÚV í apríl að Umhverfisstofnun hefði gert fjórar alvarlegar athugasemdir við mengunarvarnir og að til skoðunar væri að afturkalla starfsleyfi félagsins. Athugasemdirnar sneru að ófullnægjandi afsogi og rykhreinsun í verksmiðjunni, hráefni sem ekki henti til vinnslu sé í haugum á lóð verksmiðjunnar, díoxín og fúrön hafi mælst yfir mörkum og framleiðsluúrgangi sé safnað á lóð fyrirtækisins.

Í tilkynningu kemur fram að GMR endurvinnslan ehf. hafi nú þegar brugðist við öllum helstu frávikum sem tiltekin voru í bréfinu. Þrjú af þeim fjórum alvarlegu frávikum sem getið var um séu komin í rétt horf. Umhverfisstofnun hefur veitt GMR frest til 10. ágúst til að laga fjórða frávikið og verður öllum úrbótum lokið innan tilskilins tíma. Það frávik snýr að virkni afsogs og hreinsibúnaðar. Mælingar sem gerðar voru núna í maí sýni að GMR uppfylli allar kröfur sem gerðar eru til fyrirtækisins í gildandi starfsleyfi. GMR leiti áfram hagkvæmra og raunhæfra leiða með Umhverfisstofnun til að lágmarka umhverfisáhrif starfseminnar.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi