Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Glútenlaust múslí

19.11.2015 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: Sagafilm
Einu sinni hélt ég að það væri svakalega mikið mál og vesen að búa til múslí – ég skildi ekki af hverju fólk var að gera það sjálft – en það voru algjörar ranghugmyndir hjá mér, því það er leikur einn og svo ótrúlega gaman að hanna sína eigin samsetningu til að setja út í hreina jógúrt, hafragrautinn, chia-grautinn eða hvað annað sem okkur dettur í hug. Elsku Helena eldhúsperla benti mér á þessa útfærslu.

Ávanabindandi glútenlaust múslí – dásamlegt út í lífræna gríska jógúrt!

7 dl quinoaflögur (má nota haframjöl)
1 dl kaldpressuð ólífuolía (tæpur frekar en rúmur)
½-1 dl hlynsýróp (og má nota dökkt agave)
½ tsk Himalaya- eða sjávarsalt
1 dl macadamia hnetur eða möndlur
1 dl pekanhnetur
1 dl graskersfræ eða sólblómafræ
1 dl sesamfræ
1 dl mórber
½-1 dl hampfræ
170-200 g fíkjur, lífrænar og þurrkaðar (ég kaupi frá Himneskri Hollustu)

Stillið ofninn á 170°C blástur.
Blandið quinoaflögunum saman við ólífuolíuna, hlynsýrópið og saltið í sæmilega stórri skál og blandið vel saman.
Setjið á pappírsklædda ofnskúffu og bakið í um 15 mínútur (hrærið 2x í blöndunni)
Saxið eða malið gróft í blandara eða matvinnsluvél hnetur og fræ (og þið ráðið hvaða hnetur og fræ þið viljið nota).

Ég nota blandarann og hakka einn skammt (1 dl) í einu svo allt verði gróft hakkað. Ef þið setjið allt í blandarann í einu breytist það sem er neðst í blandaranum fljótt í mjöl jafnvel fræ- eða hnetusmjör og það sem er efst hakkast ekki.

Setjið í skál jafnóðum (sömu skál og þið notuðuð undir haframjölsblönduna til dæmis).
Skerið fíkjurnar smátt og bætið við og hrærið saman vel.

Eftir 15 mínútur blandið þið þessu vel saman við haframjölsblönduna á ofnskúffunni og bakið í um 8-10 mínútur í viðbót.
Kælið vel og setjið á krukkur. Þetta er líka falleg gjöf!

*Kínóa eða Quinoa er í raun fræ sem hagar sér líkt og korn. Það er ákaflega næringarríkt og náttúrulega glúteinlaust. Mér finnst það fara sérlega vel í maga. Það er einstaklega ríkt af kalki, járni, próteinum og góðri fitu sem dæmi og því mikill ofurmatur.
*Sjá uppskriftir með quinoa (heilu kínóa) í fyrri bókinni: Eldað með Ebbu.

sigrunh's picture
Sigrún Hermannsdóttir