Glútenlaust mataræði eykur hættu á offitu

11.05.2017 - 05:39
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Það getur aukið hættuna á offitu að skipta yfir í glútenlaust mataræði. Þetta segja sérfræðingar sem hafa rannsakað málið og komist að því að glútenlaus fæða er oft fitumeiri en sambærilegar fæðutegundir sem innihalda glúten.

Glútenlaus fæða er nauðsynleg þeim sem eru með glútenofnæmi, sem talið er hrjá um 1% Evrópubúa, og getur hjálpað þeim sem hafa glútenóþol. Hins vegar er glútenlaust mataræði líka í tísku á meðal þeirra sem þola glútenið ljómandi vel og vinsældir slíkra kúra aukast með hverju ári.

Nú hafa rannsakendur komist að því að næringarinnihald glútenfrírra matvæla er talsvert frábrugðið hinni hefðbundnu fæðu, og ekki bara á þann hátt að glútenið vanti.

Meiri fita, minna prótein

Joaquim Calvo Lerma hjá heilsurannsóknarstofnuninni La Fe í Valenciu á Spáni segir í samtali við The Guardian að hann og rannsóknarteymi hans hafi borið saman yfir 650 glútenlausar fæðutegundir í 14 fæðuflokkum við hliðstæða matvöru sem inniheldur glúten. Þetta var meðal annars brauðmeti, pasta, morgunkorn, kexkökur og foreldaðir réttir.

Niðurstaðan var sú að glútenfríi maturinn var jafnan bæði fitumeiri og próteinminni en hinn valkosturinn. Calvo Lerma varar við því að vinsældir glútenlausrar fæðu geti stuðlað að meiri offitu í samfélaginu, ekki síst meðal barna, enda borði þau gjarnan mikið af morgunkorni og kexkökum.

Benjamin Lebwhol hjá glútenofnæmismiðstöð Columbia-háskóla segir að rannsóknin renni stoðum undir fyrri athuganir sem hafi sýnt fram á að næringargildi glútenlausrar fæðu sé minna en annarrar.

David Sanders, sérfræðingur í meltingarsjúkdómum við Sheffield-háskóla, bendir hins vegar á að til séu aðrar rannsóknir sem bendi til þess að næringargildi glútenlausrar fæðu sé almennt alveg það sama og þeirrar sem inniheldur glúten. Hann tekur þó jafnframt fram að það sé ekkert sem bendi til þess að þeir sem þola glúten á annað borð græði nokkuð á að sleppa því úr mataræði sínu.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi