Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Gluggi til að breyta stjórnarskránni“

26.08.2016 - 16:40
Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson / RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir að nú sé lag að breyta stjórnarskránni, annars verði að bíða í rúmt kjörtímabil ef þingið vill breyta henni. Undanþága sem kveður á um að þingið þurfi aðeins að samþykkja breytingar einu sinni og svo þjóðaratkvæðagreiðsla í kjölfarið rennur út nú í október.

Það kom ýmsum á óvart þegar forsætisráðherra lagði fram frumvarp á Alþingi í gær um breytingar á stjórnarskránni sem þingmannafrumvarp en ekki í nafni ráðuneytisins og þar með sem stjórnarfrumvarp. Í frumvarpinu eru lagðar til nákvæmlega sömu breytingar og stjórnarskrárnefnd lagði fram í júní. Nefndin lagði reyndar fram þrenn frumvarpsdrög eða eitt frumvarp fyrir hverja breytingu. Forsætisráðherra skellir þeim hins vegar saman í eitt frumvarp. Breytingarnar sem lagðar eru til á stjórnarskránni eru ákvæði um umhverfisvernd, náttúruauðlindir og þjóðaratkvæðagreiðslur. 

Ekki bara Sigurður Ingi

Þingmenn klóruðu sér í höfðinu í gær og voru ekki vissir um að það hefði gerst áður að forsætisráðherra legði fram frumvarp sem þingmannafrumvarp. Einn þingmanna rak minni til þess að Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra hefði lagt fram frumvarp sem þingmannafrumvarp 1983. Það gerði hann vissulega. Frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem náði ekki fram að ganga. Frumvarpið var lagt fram í framhaldi af skýrslu stjórnarskrárnefndar og eins og nú var ekki full samstaða um breytingarnar. En fleiri forsætisráðherrar hafa lagt fram frumvörp sem þingmannafrumvörp. Geir H. Haarde, þá forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lögðu fram frumvarp um breytingar á stjórnarskránni og Davíð Oddsson lagði þrívegis fram frumvörp undir sínu nafni. Öll þessi frumvörp tengdust kosningalögum eða stjórnarskránni. Þannig að í raun er ekkert óeðlilegt við það að Sigurður Ingi Jóhannsson stígi fram og leggi fram frumvarp um breytingar á stjórnarskránni. En hvers vegna gerir hann það? Hann segir að sér hafi fundist miðað við þá vinnu sem lögð hafi verið í málið að Alþingi fengi að takast á við það.

 „Ég held að það sé mikilvægt að fá að mæla fyrir þessu og koma málinu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem geti sent það til umsagnar og fjallað um það. Það er opinn sá gluggi að ljúka málinu frá Alþingi í þessari lotu, hvort það verður í september eða fram í október. Með það að markmiði að nýtt þing gæti samþykkt þetta eða ekki,“ segir Sigurður Ingi.

Stjórnarskráin kveður á að breytingar á henni taki ekki gildi fyrr en tvö þing hafa samþykkt breytingarnar. Hins vegar er í gildi undanþága frá þessari reglu sem kveður á um að aðeins þurfi samþykki eins þings og að í kjölfarið fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla innan sex mánaða. Þessi undanþága rennur út í október. Það er glugginn sem Sigurður Ingi talar um og jafnframt ef breytingar yrðu samþykktar nú gæti næsta þing samþykkt þær og þær orðið að lögum. Glugginn er eiginlega tvöfaldur. Annars verði menn að bíða með breytingar á stjórnarskrá í minnsta kosti rúm 4 ár. Stjórnarskrárnefnd lagði fram málamiðlun sem í raun var ekki sátt um þegar á reyndi. Hún lagði eins og fyrr segir fram þrjú frumvörp. Eftirlits - og stjórnarskipunarnefnd fær frumvarp Sigurðar Inga í hendur ef það kemst í gegnum fyrstu umræðu. Nefndin þarf þá að kalla eftir umsögnum og henni er í raun í lófa lagið að skipta frumvarpinu í þrjú frumvörp. Hugsanlega er meiri sátt um eitt ákvæði fremur en önnur.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV