Gleymdi fatlaðri konu í bílnum

28.02.2018 - 06:24
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Bílstjóri hjá ferðaþjónustu fatlaðs fólks í Reykjavík gleymdi fatlaðri konu í bíl sínum í gær. Hann hafði sótt hana á sambýli í Grafarvogi og átti að aka henni til vinnu. Greint er frá málinu í Fréttablaðinu í dag.

Konan var sótt á sambýlið Vættaborgir í Grafarvogi og bílstjórinn átti að aka henni til vinnu í Lækjarási, vinnustað fyrir fatlað fólk í Fossvogi. Fréttablaðið kveðst hafa heimildir fyrir því að málið sé litið alvarlegum augum.

Samkvæmt frétt blaðsins er konan mikið fötluð og flogaveik. Hún er því aldrei skilin ein eftir. Fréttablaðið greinir frá því að bílstjórinn hafi farið heim til sín í kaffi og gleymt henni í bílnum á meðan. Þegar hún skilaði sér ekki í vinnuna var farið að grennslast fyrir um hana. Kom þá í ljós að hún var enn í bílnum.

Fréttablaðið greinir frá því að brugðist hafi verið skjótt við málinu hjá Strætó í gær. Ferðaþjónusta fatlaðs fólks er á vegum Strætó bs. en verktakar sinna akstrinum.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi