Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Gleymdar kökur“ Nigellu

Mynd:  / 

„Gleymdar kökur“ Nigellu

20.12.2018 - 16:56

Höfundar

Sjónvarpskokkurinn Nigella Lawson hefur fyrir margt löngu hreiðrað um sig í hjörtum íslenskra matgæðinga og verið fastagestur í íslensku sjónvarpi um árabil. Þessi sjarmerandi sælkeri reiðir hér fram hátíðlegar og nokkuð óvenjulegar jólasmákökur í sérstökum jólaþætti.

Gott ráð er að hefja bakstur að kvöldi þar sem kökurnar þurfa að vera í ofninum til næsta dags.

Hráefni:

Tvær stórar eggjahvítur
ögn af salti
100 grömm af fíngerðum sykri
¼ tsk malaðar kardimommur
1 tsk maíssterkja
1 tsk hvítvíns- eða eplaedik
75 g litlir súkkulaðibitar
75 g saxaðar pistasíur

lófafylli af söxuðum pistasíum til viðbótar, til skreytingar
kökuglimmer, ef vill

Aðferð:

Hitið ofninn í 180 gráður.

Eggjahvítur og salt eru sett saman í hrærivél og þeytt saman þar til þetta verður loftkennt og létt. Sykrinum síðan bætt rólega út í á meðan vélin gengur.  

Slökkvið á vélinni. Bætið kardimommum við, teskeið af maíssterkju og ediki. Öllu blandað rólega saman með sleif. Að endingu er súkkulaðibitum og pistasíuhnetum bætt út í blönduna og hrært rólega saman.

Deigið er sett á smjörpappír í háa toppa. Þá er pistasíum og glimmeri stráð yfir til skrauts. Að lokum er kökunum stungið inn í ofn. Slökkvið strax á ofninum.

Kökurnar „bakast“ við hitann sem eftir er, á meðan ofninn kólnar yfir nóttina. Gott ráð er að setja miða utan á ofninn þar sem bakari minnir sjálfan sig á að nota ekki ofninn fyrr en kökurnar eru komnar út!

Verði ykkur að góðu!

Þátturinn Til borðs með Nigellu er aðgengilegur í heild sinni í spilara RÚV. Þar má finna fleiri einfaldar og jólalegar uppskriftir að réttum til að njóta með vinum og fjölskyldu. 
Smellið hér til að horfa.