Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Glettin, hlý og frumleg“

Mynd: stikla/skjáskot / Kona fer í stríð

„Glettin, hlý og frumleg“

29.04.2018 - 10:09

Höfundar

Stikla nýjustu kvikmyndar Benedikts Erlingssonar Kona fer í stríð var frumsýnd á dögunum en vefsíða Variety tryggði sér einkarétt á sýningu stiklunnar í einn sólarhring. Myndin hefur vakið mikla athygli utan landsteinanna en hún hefur verið valin til þáttöku á Critics‘ Week á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Halldóra Geirharðsdóttir fer með aðalhlutverk en með önnur hlutverk fara Jóhann Sigurðarson, Juan Camillo Roman Estrada og Jörundur Ragnarsson. Handritið er eftir Benedikt Erlingsson og Ólaf Egilsson.

Í myndinni segir frá kórstjóra á fimmtugsaldri sem ákveður að bjarga heiminum og lýsir yfir stríði gegn allri stóriðju í landinu. Hún ákveður að gerast skemmdarvargur og er tilbúin til að fórna öllu fyrir jörðina og hálendi Íslands. Líf hennar umturnast þó þegar munaðarlaus stúlka stígur inn í líf hennar og aðalhetjan þarf að taka ákvörðun um hvort hún bjargi einu barni eða heiminum öllum.

Kona fer í stríð er önnur kvikmynd Benedikts Erlingssonar í fullri lengd á eftir Hross í oss sem kom út árið 2013. Hross í oss vann til fjölda verðlauna og má þar nefna Norrænu kvikmyndaverðlaunin og verðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í San Sebastián á Spáni, auk verðlauna á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tókýó og á Tallinn Black Nights hátíðinni í Eistlandi.

Á vefsíðu Variety er vitnað í Charles Tesson, listrænan stjórnanda Critics‘ Week í Cannes sem segir að í Kona fer í stríð sé dregin upp glettin, hlý og frumleg mynd af konu á sama tíma og tekist er á við pólitísk málefni.

Hér má nálgast umfjöllun Variety um myndina. 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Kona fer í stríð til Cannes

Hross í oss fær verðlaun Norðurlandaráðs

Leiklist

Hross í oss verðlaunuð í Tallinn

Kvikmyndir

Krítík um Málmhaus og Hross í oss