Glerhjúpuðu pálmatrén verða endurskoðuð

Mynd með færslu
 Mynd:

Glerhjúpuðu pálmatrén verða endurskoðuð

31.01.2019 - 09:40

Höfundar

Listaverkið Pálmar, sem á að rísa í nýju hverfi Reykjavíkur, verður endurskoðað áður en kemur til framkvæmda. Þetta segir borgarfulltrúi Samfylkingar. Engir garðyrkjufræðingar voru í dómnefndinni, sem valdi verkið.

Ótækt að verja 140 milljónum í tilraunaverkefni

Borgarfulltrúarnir Eyþór Arnalds Sjálfstæðisflokki og Kristín Soffía Jónsdóttir Samfylkingu komu í Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun til að ræða áform meirihlutans um uppsetningu tveggja pálmatrjáa inni í glerhjúp í hinni nýju Vogabyggð. Verkið, sem heitir Pálmar og er eftir listakonuna Karin Sander, á að kosta um 140 milljónir, þar af kosta pálmatrén tvö eina og hálfa milljón og glerhjúparnir umhverfis þau 43 milljónir hver. Minnihlutinn í borginni hefur gagnrýnt þetta harðlega. Eyþór sagði það ótækt að verja tífallt hærri fjárhæð í þetta tiltekna verk, sem mundi flokkast sem tilraunaverkefni, heldur en borgin eyðir á ári í listaverk almennt. 

Enginn garðyrkjufræðingur í dómnefnd

Kristín sagðist hissa á umræðunni og vísaði í þverpólitíska sátt fyrri borgarstjórnar um að verja 150 milljónum í útilistaverk í hverfinu, sem kostar í heild um sex milljarða króna. Hún undirstrikaði að engir garðyrkjufræðingar hefðu verið í dómnefndinni sem valdi verkið, sem yrði að öllum líkindum endurskoðað. Það væri ekki í fyrsta sinn sem slíkt væri gert. 

„Það verður að leggja mat á raunhæfni þessa verkefnis. Það er staðreynd. Við förum ekki af stað, ekki þarna frekar en annarsstaðar, í myrkri,” segir hún og undirstrikar að meirihlutinn hafi ekki verið upplýstur um störf dómnefndar. „Þetta er djörf tillaga og á að vekja umræðu. Svo þarf kannski að gera breytingar. Höldum ekki áfram með eitthvað sem eitthvað sem er tæknilega ómögulegt.” 

Mynd með færslu
 Mynd:

Ætla að flytja trén frá Suður-Evrópu

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingar og formaður dómnefndarinnar, sagði fyrr í vikunni að pálmatrén yrðu segull og kennileiti fyrir hverfið. Höfundur verksins, listakonan Karin Sander, reiknar með að flytja pálmatrén inn frá Suður-Evrópu og að þau vaxi og dafni í glerhjúpnum.

„Hugmyndin er að í stað þess að taka tré frá Noregi, tökum við tré sem vísar í sumarleyfi, strendur og tómstundir. Við flytjum ekki aðeins trén heldur loftslagið til Íslands,“ sagði Sander í vikunni.

Gurrý og Vigdís efins

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, setti örstutta yfirlýsingu á Twitter í gær vegna málsins sem hljóðaði svo: Ég hef ekkert tjáð mig í stóra pálmamálinu - það er vegna þess að ég er orðlaus. Vigdís er menntuð í garðyrkju úr Garðyrkjuskólanum og hefur starfað lengi við blómaskreytingar.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og forstöðumaður við garðyrkjusvið Landbúnaðarháskóla Íslands, lýsti yfir miklum efasemdum vegna pálmanna í Síðdegisútvarpinu í gær. Þó að þeir væru skemmtileg hugmynd, gæti úrtfærslan reynst öllu flóknari. Þó bæri að fagna öllum áætlunum um gróðursetningu plantna, en þetta verkefni gæti vaxið fólki í augum. 

Eitt pálmatré kostar jafn mikið og dúnmelurinn

Það er ekki langt síðan aðrar, og öllu smærri plöntur, á vegum Reykjavíkurborgar vöktu töluvert umtal. Einn angi Braggamálsins sneri að stráum sem voru flutt inn frá Danmörku, dúnmelur, til að fegra umhverfi Braggans við Nauthólsvík. Dúnmelur er stórvaxið gras og mjög líkur hinu algenga melgresi sem vex villt hér á landi. En grasið kostaði skildinginn, rúmar 750 þúsund krónur. 

Gert er ráð fyrir að pálmatrén sem eiga að prýða umhverfi Vogahverfis kosti um eina og hálfa miljón, eða 750 þúsund hvort, jafn mikið og dúnmelurinn við Braggann. Glerhólkarnir, eða gróðurhúsin, sem eiga að halda á þeim hita eiga að kosta um 43 milljónir hvort, er fram kemur í kostnaðaráætlun verksins. Annar kostnaður vegna verksins fer til listakonunnar, í umsýslu og framkvæmd.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson

Sérfræðingar sögðu dómnefnd að þetta væri gerlegt

Í lýsingu Sander um Pálma segir að íbú­ar geti haft áhrif á verkið og lagt til ann­an fram­andi gróður í gróður­hús­in þegar fram líða stund­ir, eins og til dæmis kirsuberjatré eða aðrar jurtir. Þá hafi dóm­nefnd­in rætt við sér­fræðinga varðandi pálma­trén sem segja að vel sé mögu­legt að halda í þeim lífi í slíku vist­kerfi og fram­kvæmd­in því öll ger­leg. Fram kemur í frétt mbl.is um málið segir að nú standi yfir ár list­ar í al­menn­ings­rými hjá Lista­safni Reykja­vík­ur sem mun vekja sér­staka at­hygli á slíkri list á ár­inu. 

Tengdar fréttir

Myndlist

Pálmatré í nýrri íbúðabyggð í Reykjavík