Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Gleðiefni að dómurinn hafi verið mildaður

18.01.2017 - 10:22
Mynd: EPA / EPA
Kristinn Hrafnsson, fyrrverandi talsmaður Wikileaks, fagnar því að dómur yfir Chelsea Manning hafi verið mildaður. Manning sé einn mikilvægasti uppljóstrari síðari tíma. Þá hljóti þessi niðurstaða að fela í sér að sakamál gegn Wikileaks verði látið falla niður.

Barack Obama Bandaríkjaforseti stytti dóm yfir Chelsea Manning í gærkvöld. Hún hefur setið í fangelsi í rúm sex ár fyrir að leka þúsundum gagna í eigu bandaríska ríkisins. 

„Þetta eru mikil gleðitíðindi og sigur fyrir réttlætið að búið sé að milda þennan dóm yfir henni og að hún sé að losna eftir nokkrar vikur. Hún er mikilvægasti uppljóstrari síðari tíma sem að sýndi gríðarlegt hugrekki með því að miðla upplýsingum um mjög mikilvæg málefni," sagði Kristinn í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Upplýsingar sem Manning var dæmd fyrir að koma til Wikileaks um hernað í Afganistan og Írak og diplomataskjöl sem vörpuðu ljósi á það hvernig Bandaríkin haga sinni utanríkisstefnu. „Upplýsingarnar breyttu heimsmyndinni. Það er ekkert öðruvísi,“ segir Kristinn. „Við fengið alveg nýja sýn á Afganistanstríðið og Íraksstríðið. Við fengum líka upplýsingar um það hvernig valdinu er beitt og misbeitt og veröldin er ekki söm eftir."

Donald Trump tekur við embætti forseta Bandaríkjanna eftir tvo daga. Kristinn segist ekki búast við því að Trump snúi ákvörðun Obama við. „Mér finnst það ólíklegt.“

Þyrluárásin í Bagdad

Samstarf Kristins og Wikileaks hófst í apríl 2010 með birtingu á myndskeiði sem tekið var úr bandarískri herþyrlu sem gerði skotárás á hóp manna í Bagdad í Írak. Á meðal þeirra sem létu lífið voru blaðamenn Reuters og almennir borgarar sem reyndu að koma særðum til aðstoðar. „Ég held að þetta myndband eigi eftir að lifa með heiminum sem skýr myndgerð á grimmd í aðgerðunum í Írak og dæmi um þá stríðsglæpi sem þar voru framdir.“  

Hér má lesa frétt um þyrluárásina og nálgast myndskeiðið. 

Assange hefur sagst reiðubúinn til að gefa sig fram til framsals til Bandaríkjanna ef Chelsea Manning yrði látin laus. Wikileaks birtu skilaboð á Twitter í morgun þar sem fram kemur að hann hyggist standa við það. 

Kristinn segist gera ráð fyrir að sakamál gegn forsvarsmönnum Wikileaks vegna þeirra upplýsinga sem Manning var dæmd fyrir að leka hljóti að verða látin falla niður. „Þetta er tilhæfulaus sakarannsókn og fádæma heimskulegt að svona geti átt sér stað í lýðræðisríki. Með því að forsetinn tekur þessa jákvæðu og gleðilegu ákvörðun að milda dóminn yfir Manning þá hlýtur maður að ætla að botninn sé dottinn undan þessari sakarannsókn. Það er með eindæmum ef það er viðurkennt að uppljóstrarinn hefur verið beitt órétti en að það eigi að pönkast áfram í þeim fjölmiðlum sem birtu upplýsingarnar og unnu úr þeim. Það gengur ekki upp.“  

Kristinn efast um að þessi niðurstaða í máli Manning hafi áhrif á mál annars uppljóstrara, Edwards Snowden. Talsmaður Hvíta hússins hafi greint frá því á blaðamannafundi um daginn litið væri svo á að mál þeirra væru fullkomlega eðlisólík.