Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gleði, hugmyndaflug og fagrar myndir Gosa

Mynd: Borgarleikhúsið / Borgarleikhúsið

Gleði, hugmyndaflug og fagrar myndir Gosa

09.03.2020 - 13:23

Höfundar

Gleðin ríkir í nýrri leiksýningu Borgarleikhússins um spýtustrákinn Gosa, segir María Kristjánsdóttir gagnrýnandi.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Í meira en öld hefur „Ævintýrinu um spýtustrákinn Gosa“ eftir Ítalann Carlo Goldodi verið haldið að evrópskum börnum og einkum því að nefið á honum hafi lengst í hvert skipti sem hann sagði ekki sannleikann. Þannig var almúgabörnum kennt að þau mættu ekki ljúga til að ævi þeirra yrði farsæl og fögur. Þó að allir hafi vitað og viti að kúnstin að ljúga leiði yfirleitt til mikilla metorða í samfélögum okkar, jafnvel ráðherrastóla.

Það er Leikfálag Reykjavíkur sem sýnir leikverk Ágústu Skuladóttur, Karls Ágústs Úlfssonar og leikhópsins unnið úr upprunalegu sögunni um Gosa í þýðingu Þorsteins Thorarensen á litla sviði Borgarleikhússins. Ágústa Skúladóttir leikstýrir. Söngvar eru eftir Karl Ágúst Úlfsson. Tónlist eftir Eirík Stephensen og Eyvind Karlsson.

En byrjum á leikmyndinni eftir Þórunni Maríu Jónsdóttur. En hún hefur byggt ofurháa mynd sem minnir á Ítalíu, minnir á brúðuleikhús. Strimlatjald fyrir miðju, leyfir innkomur og á þær er einnig varpað myndum, hóflega þó sem gefa til kynna staði þarsem atriði gerast. Tröppur liggja upp að þeim á báða vegu en til hliðar til vinstri frá sal séð eru tónlistarmennirnir Eiríkur Stephensen og Eyvindur Karlsson staðsettir alla sýninguna nema þegar þeir taka að sér aðskiljanleg hlutverk sem þeir gera reyndar ákaflega vel.

Auk þeirra og Gosa sem leikinn er af Haraldi Stefánssyni , leika aðeins tveir leikarar öll hin fjölmörgu hlutverk í sýningunni, þau Halldór Gylfason og Katla Margrét Þorgeirsdóttir. Og það verður að segjast að það er hreint afrek hvernig þau á örskotstundu skipta úr einni skýrri skemmtilegu persónunni yfir í aðra en þau eru þar studd af ákaflega hugmyndaríkum búningum Þórunnar Maríu, leikgervum hennar og Guðbjargar Ívarsdóttur og grímum Elínar S. Gísladóttur. Og auðvitað leikstjóranum, gleymum henni ekki.

Ágústa Skúladóttir hefur úr góðu epísku handriti með velkveðnum söngvum Karls Ágústs, skapað glettilega litríka og skemmtilega sýningu undir áhrifum frá Commedia dell arte. Tveir eru sögumenn , þau Halldór og Katla sem leiða áhorfendur af fjöri gegnum framvinduna , söngvar og tónlistin styðja hana líka. Við fáum að sjá spýtustrákinn Gosa verða til. Fallegur verður hann og ferkantaður í meðförum Haralds Stefánssonar. Gosi lærir að ganga en hleypst þá á brott frá honum pabba sínum smiðnum Jafet. Lendir í alls konar ævintýrum, þarf að glíma við hættulega bófa, einnig ágirndina hættulegu og ótta en nær að lokum aftur í faðm föður síns. Af öllu þessu lærir hann nóg til þess að breytast að lokum úr spýtustrák í alvöru dreng af holdi og blóði.

Boðskapurinn um að vera hlýðinn drengur er til allra hamingju ekki ríkjandi í sýningunni. Ríkjandi er hugmyndaflugið, fagrar myndir, tónlist og gleðin yfir að vera til með góðu fólki. Það má því mæla með honum Gosa.