Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Glatað í Kringlunni með mömmu

Mynd: RÚV / RÚV

Glatað í Kringlunni með mömmu

11.10.2019 - 10:55

Höfundar

Snorri Helgason var heldur myrkur á síðustu plötu sinni Margt býr í þokunni en hann hefur fært sig í hýrari sálma. Nýjasta platan hans Bland í poka er barnaplata með smellnum stuðlögum sem hann ásamt einvala liði söngvara og hljóðfæraleikara syngur og trallar fyrir yngstu kynslóðina.

Snorri er um þessar mundir að safna fyrir útgáfunni á Karolinafund og þar er til mikils að vinna. Leggi maður til dæmis til hundrað og tólf þúsund krónur fær maður Snorra heim til sín með gítarinn þar sem hann flytur ábreiðu af hvaða lagi sem húsráðandi óskar sér. Fyrsti smellurinn sem gefinn er út af plötunni nefnist Kringlubarnið en það eru leikkonurnar Halldóra Geirharsdóttir og Saga Garðarsdóttir kona Snorra sem syngja lagið. Saga, Snorri og dóttir þeirra Edda kíktu í Síðdegisútvarpið og sögðu frá plötunni.

„Hugmyndin kviknaði fyrir sjö árum síðan. Mig langaði að gera tónlist í anda Hrekkjusvínanna svo ég smalaði saman skotheldu þotuliði og við gerðum Kringlubarnið sem er komið út,“ segir Snorri.

„Það er náttúrulega rosalega vel sungið,“ segir Saga söngkona lagsins. „Ég er fyrst og fremst rosalega ánægð með að Snorri hafi leyft mér að syngja lag sem fólk heyrir.“

Þó lagið sé sungið af mikilli innlifun kannast Saga sjálf ekki við að vera Kringlubarn. „Ég á svo mussulega foreldra sem myndu aldrei láta sjá sig í hamingjuhöllinni. Ég mátti mest ganga Skólavörðustíginn,“ segir hún.

Lagið fjallar um mæðgur sem eru ósammála um hvort það sé góð hugmynd að fara í Kringluna. Mamman vill kaupa sér djúspressu og barnið vill ekki taka þátt í innkaupunum með neinum hætti. „Þetta er svolítið desemberlag um það þegar allir eru að dúndra sér í Kringluna fyrir jólin. Maður er í úlpu og verður allt of heitt og mamma kaupir alls ekki það sem þig langar í,“ segir Saga. Aðspurð hvernig það sé að gefa út plötu með manninum sínum áréttar Saga að það sé Snorri sem gefi út plötuna. „Ég er nú bara hérna því mér finnst svo gaman að syngja,“ segir hún.

Snorri og Saga eru sannkallað ofurpar eða dúndurdúó og Saga segist upplifa þau sem hin nýju Beggi og Pacas. „Eða erum við kannski Kalli Baggalútur og Tobba? Egill Ólafs og Tinna?“ Spyr Snorri.

Meðfram plötunni gefur hann út bók með gítargripum laganna og myndskreytingum eftir Elínu Elísabetu og það má fjárfesta í henni á söfnunarsíðu plötunnar. „Svo ef þú borgar mest kem ég heim til þín,“ minnir Snorri á.

Rætt var við Snorra Helgason og Sögu Garðarsdóttur í Síðdegisútvarpinu og má hlýða á viðtalið í spilaranum efst í fréttinni.

Mynd: RÚV / RÚV

Tengdar fréttir

Tónlist

Barnapartý Snorra Helga

Popptónlist

Aðventugleði: Snorri Helgason