Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Gjörgæslan ógnar öryggi sjúklinga

09.10.2013 - 19:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut uppfyllir ekki evrópska staðla varðandi húsakost og öryggi sjúklinga. Margir læknar á deildinni þurfa stera til að veikjast ekki vegna svepps í byggingunni.

Pláss er fyrir tíu sjúklinga á gjörgæsludeildinni við Hringbraut, en oftast er ekki starfsfólk til að sinna fleirum en sex til sjö. Hús Landspítalans er 80 ára gamalt og settur yfirlæknir á deildinni, segir að meira en 30 ár séu síðan húsið var orðið úrelt fyrir starfsemina. Gísli Sigurðsson, settur yfirlæknir á gjörgæsludeild, segir að deildin uppfylli ekki helminginn af gömlum evrópskum stöðlum frá 1991. Hann hefur heimsótt spítala í yfir 20 vestrænum löndum. „Ég hef aldrei séð svo lélega aðstöðu eins og við höfum á Landspítalanum í dag.“

Hættuleg lyfta
Þrengslin á deildinni auka smithættu á milli sjúklinga. Þá segir Gísli lyftuna á deildinni beinlínis hættulega. „Það þarf að troðast inn í þessa lyftu. Það er í rauninni lífshættulegt að fara með sjúklinga á milli hæða hér. Þetta eru mjög gömul tæki og hefði þurft að endurnyja fyrir mjög löngu síðan. Þannig að þetta er ekki hættulaust og það hefur komið fyrir að lyftan hefur stoppað á milli hæða. Þá fær maður enga hjálp ef eitthvað bjátar á hjá sjúklingnum og það hefur komið fyrir. Því miður.“

Nýr spítali eina lausnin
Myglusveppur herjar enn á húsnæði spítalans. Hann segir að stór hluti af gömlu byggingunni sé enn með gamla, myglaða glugga. „Ef ég er í vinnu, þá verð ég að taka steralyf til þess að geta þolað við. Ég þarf ekki að taka þau þegar ég er í fríi til dæmis. Og það eru margir aðrir læknar.“ Hann sér enga aðra lausn í sjónmáli en að byggja nýjan spítala. „Það er hægt að setja plástur á sárin hér og þar, en við erum bara búin að gera það svo rosalega lengi að ég sé ekki fyrir mér hvernig við munum vinna hér eftir fimm ár til dæmis. Það er bara næstum því óhugsandi.“