Gjöld leigufélaga kalli á endurskoðun laga

03.05.2018 - 15:08
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Þörf er á að endurskoða lög um húsaleigu þar sem þau ná ekki nægilega vel utan um starfsemi stóru leigufélaganna. Þetta segir Ása Ólafsdóttir, dósent við Háskóla Íslands og sérfræðingur í samningarétti.

Hún segir mögulegt að einhver þeirra gjalda sem félögin innheimti af leigjendum falli ekki undir lögin eins og þau eru núna. „Það þarf að skoða hvort það séu einhver tilvik sem falla utan við lögin svo hægt sé að tryggja réttindi leigjenda betur," segir Ása.

Í gær greindi fréttastofa frá því að svokallað flutningsgjald sem Almenna leigufélagið rukkar leigjendur sína um, óski þeir eftir flutningi milli íbúða félagsins, hafi verið kært til kærunefndar húsamála. Ása segir það mál sýna að ástæða sé til að endurskoða lögin, jafnvel þótt þau hafi verið endurskoðuð fyrir nokkrum árum. „Það stemmir ekki, að mínu mati, að leigjendur þurfi að borga eitthvað gjald sem nýr aðili þyrfti ekki að borga. Þótt þetta gjaldi komi hugsanlega í stað uppsagnarákvæðis þá spyr ég mig að því hvort þetta séu skilmálar sem félaginu sé stætt á að setja. Ég held að þetta sé akkúrat mál sem sé eðlilegt að skoða betur."

Mynd með færslu
 Mynd: HÍ

Ása segir að aðrar norrænar þjóðir séu komnar lengra með sinn leigumarkað og eðlilegt að litið sé á lögin þar til viðmiðunar. Mun meiri reynsla sé af leigufélögum í þeim löndum. „Á Norðurlöndunum er mun þroskaðari leigumarkaður heldur en hér og reynslan af þessum leigufélögum er mun meiri. Það væri eðlilegt að líta þangað í þessu samhengi. Danir eru til dæmis að hefja vinnu við að uppfæra sín lög núna enda þarf að skoða þetta reglulega."

sigmannth's picture
Sigmann Þórðarson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi