Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gjaldþrota Karl þarf að reiða fram tryggingu

09.05.2018 - 14:44
Mynd með færslu
Karl Wernersson Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að athafnamaðurinn Karl Wernersson þurfi að leggja fram 800 þúsund króna málskostnaðartryggingu í máli sem hann hefur höfðað gegn skiptastjóra í þrotabúi bróður síns. Í málinu reynir hann að endurheimta 200 milljóna króna skuldabréf sem fylgir fyrsti veðréttur að Galtalæk og húsum sem þar eru.

Eftir að Steingrímur varð gjaldþrota stefndi Karl skiptastjóranum Helga Birgissyni til að fá skuldabréfið afhent. Hann telur sig eiga rétt á því þar sem Steingrímur hafi brotið gegn samningi um að hann talaði aldrei um Karl við nokkurn mann. Það hafi hann gert í yfirheyrslum hjá sérstökum saksóknara og blaðaviðtali.

Karl var sjálfur úrskurðaður gjaldþrota 16. apríl síðastliðinn og fékk heimild frá skiptastjóra til að reka málið á hendur Helga áfram í eigin nafni. Í tilefni gjaldþrotsins fór Helgi aftur á móti fram á að Karl legði fram tryggingu fyrir því að hann ætti fyrir málskostnaði í málinu á hendur honum. Karl mótmælti kröfunni en Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari féllst hins vegar á kröfuna fyrir hádegi í dag. Karl þarf að reiða fram 800 þúsund krónur í næstu viku og ef hann getur það ekki mun málið á hendur Helga falla niður.

Það urðu einmitt örlög máls í Hæstarétti í síðustu viku. Karl hafði verið dæmdur í héraði til að endurgreiða þrotabúi félagsins Háttar 47 milljónir króna með vöxtum og áfrýjað málinu til Hæstaréttar. Helgi Birgisson er einnig skiptastjóri Háttar og í Hæstarétti krafðist hann 600 þúsund króna málskostnaðartryggingar úr hendi Karls. Karl borgaði ekki og málinu var því vísað frá Hæstarétti.