Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gjaldþrota en sagt góður fjárfestingarkostur

Mynd: RÚV / RÚV
Gjaldþrot var það eina í stöðunni og síðasta verk United silicon var að greiða 56 starfsmönnum fyrirtækisins laun. Stærsti kröfuhafinn gerir sér vonir um að selja verksmiðjuna og telur söluverðmæti hennar ekki rýrna mikið við gjaldþrotið. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir að herða þurfi ólina í rekstri bæjarins komi ekkert í staðinn fyrir United Silicon.

„Ég vil bara taka það fram að stjórn og starfsmenn hafa gert sitt allra besta til að halda félaginu gangandi en því miður þá reyndust málin flóknari og erfiðari en við töldum í fyrstu og þar með er þessi staða óumflýjanleg og málið í höndum skiptasjtóra. Það var mikið tjón í tíð fyrri eiganda sem hefur verið unnið að því að vinda ofan af,“ segir Karen Kjartansdóttir sem hefur verið upplýsingafulltrúi United Silicon.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

Engin framleiðsla hefur verið í verksmiðjunni eftir að Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemina í september vegna lyktarmengunar og fordæmalauss frávikafjölda í 9 mánaða rekstrarsögu fyrirtækisins. 

Kröfur í úrbótaáætlun réðu úrslitum

Í desember skilaði United Silicon úrbótaáætlun til stofnunarinnar. Fyrir helgi gerði Umhverfisstofnun stjórn United Silicon grein fyrir því hvaða skilyrði fyrirtækið þyrfti að uppfylla til þess að úrbótaáætlunin fengist samþykkt. Ágreiningur ríkti um skorstein, sem Umhverfisstofnun vildi að settur yrði upp, til að draga úr lyktarmengun. United Silicon bað um að fá að setja skorsteininn upp eftir gangsetningu, vísaði til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sagði það geta tekið á annað ár að koma skorsteininum upp, á meðan yrði engin starfsemi og líklega þyrfti að segja upp öllu starfsfólki. Umhverfisstofnun hélt þó kröfunni til streitu, fyrst yrði skorsteinninn settur upp, fyrr yrði verksmiðjan ekki gangsett. En hvers vegna?

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir mest hætt við lyktaráhrifum þegar verið sé að keyra ofninn í gang og enginn búnaður í verksmiðjunni til þess að fanga mengunarefnin eða dreifa þeim. „Við töldum að þetta væri einfaldlega svo mikilvægur hlekkur í því að ná því markmiði sem að er stefnt að það kom ekki til þess að velja á milli tveggja leiða.“

Er markmiðið þá að koma alfarið í veg fyrir lyktarmengun?  

„Já, að minnsta kosti að draga úr henni þannig að hún verði vart merkjanleg.“

Karen segir að þessi ákvörðun Umhverfisstofnunar hafi ráðið úrslitum. Staða fyrirtækisins hafi við þetta þrengst enn frekar. 

„Það voru líkur á því að við myndum ná nauðasamningum áður en þessi ákvörðun lá formlega fyrir og við lögðum upp með það.“ 

Ólíklegt að kröfuhafar fái eitthvað fyrir sinn snúð

Nú er málið í höndum skiptastjóra. Karen vonar að staða starfsfólks skýrist sem allra fyrst.Hún segir starfsfólkið fá sín laun en hvað um kröfuhafana, fá þeir eitthvað upp í sínar kröfur? „Það eru því miður litlar líkur á því úr því sem komið er.“

Fylla þurfi skarð United Silicons

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Reykjanesbær.

Þannig verður Reykjanesbær líklega af þeim 162 milljónum United Silicon skuldaði í gatnagerðargjöld. Kjartan Már Kjartansson, bæjarastjóri, segir Umhverfisstofnun hafa staðið sig með myndarbrag og er ánægður með að stofnunin hafi hlustað á bæjarráð og látið þarfir íbúa ganga fyrir. Gjaldþrotið kemur þó við fjárhag bæjarins. Í fyrra samþykkti bærinn aðlögunaráætlun til ársins 2022 um hvernig bærinn ætlar að komast undir 150% skuldaviðmiðið sem gerð er krafa um í fjármálareglum sveitarstjórnarlaga. Þar skipta tekjur Reykjanesshafnar miklu og þær verða fyrst og fremst til vegna skipaumferðar, meðal annars vegna stóriðju í Helguvík. Nú minnkar sú umferð og tekjurnar þar með og því þarf að endurskoða áætlunina. Kjartan segir áform Thorsils um að reisa kísilver standa en að takist ekki að fylla skarð United Silicon þurfi að herða ólina í rekstri bæjarins enn frekar. Til skamms tíma ættu áhrifin þó ekki að vera mikil þar sem bærinn þarf ekki að standa við ákvæði í samningi sem gerður var við United Silicon um frekari fjárfestingar og uppbyggingu á hafnarsvæðinu. Til lengri tíma þurfi að finna önnur verkefni enda búið að fjárfesta mikið og höfnin skuldsett. Hann segir að það hljóti einhver að sýna áhuga, höfnin sé góð og mikið laust landrými. 

„Mikill gleðidagur“

Þetta eru endalok félagsins en hvernig byrjaði þetta? 

„Þetta er auðvitað mjög gleðilegur dagur vegna þess að hér er verið að taka fyrstu skóflustungu af verksmiðju sem stefnt er að því að verði sú stærsta sinnar tegundar í heiminum en þetta er líka fyrsti áfanginn í mjög mikilli uppbyggingu um allt land. Þetta er mjög gleðilegur dagur,“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, þann 27. ágúst 2014. Eftir að fyrsta skóflustungan hafði verið tekin. 

Tveimur árum síðar var verksmiðja United Silicon risin í Helguvík og fyrsti ofn af fjórum kominn upp. Tvær byggingar að vísu hærri en deiliskipulag gerði ráð fyrir. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Haustið 2016 hófst prófun á tækjum og búnaði og síðan hefur nær allt gengið á afturfótunum. Frávikafjöldinn fordæmalaus og íbúar ósáttir við lyktarmengun sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í starfsleyfi. Sumir kvörtuðu yfir líkamlegum einkennum. „Ég fór að fá einkenni, það fór að blæða úr nefinu á mér og hálsinum,“ sagði einn viðmælenda Spegilsins í Reykjanesbæ í mars.  Umhverfisstofnun var fljótlega komin með fyrirtækið í gjörgæslu. Það hafði ekki verið gert ráð fyrir lyktarmengun frá verksmiðjunni og Umhverfisstofnun sagði mengunina geta haft áhrif á starfsleyfi United Silicon breyttist ástandið ekki fljótt. Talsmenn verksmiðjunnar sögðu þetta byrjunarörðugleika, verið væri að finna réttar stillingar á afsogi frá ljósbogaofninum. Á fyrstu vikunum fór Umhverfisstofnun í fjórar eftirlitsferðir og skráði 11 frávik frá ákvæðum starfsleyfis. Í byrjun desember fyrirskipaði Umhverfisstofnun að slökkva skyldi á ofni kísilversins vegna vinnuslyss. Gefin voru fyrirmæli um að ekki skyldi kveikt á ofninum aftur fyrr en brugðist hefði verið við ábendingum Umhverfisstofnunar. Þann 14. desember var haldinn íbúafundur í Reykjanesbæ, þá höfðu yfir hundrað kvartanir vegna mengunar borist Umhverfisstofnun. Fulltrúi stofnunarinnar greindi frá því að stofnunin hefði áhyggjur af samskiptum við fulltrúa fyrirtækisins. 

 

Mynd með færslu
Íbúafundur andstæðinga stóriðju í Stapa Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Íbúafundur í Reykjanesbæ.

Byrjunarörðugleikarnir urðu viðvarandi og árið 2017 rak hvert óhappið annað. Það kviknaði ítrekað í og áfram var kvartað yfir mengun. Í febrúar krafðist Umhverfisstofnun þess að ráðist yrði í úrbætur í mengunarmálum ella yrði reksturinn stöðvaður.

„Tólin okkar tala ekki rétt saman og við erum með sérfræðinga frá framleiðendum búnaðarins sem eru að hjálpa okkur en þetta bara gengur miklu hægar en okkur var lofað.“ 

Sagði Kristleifur Andrésson, öryggisstjóri Verksmiðjunnar í samtali við Spegilinn í lok mars. 

Mælingaklúður og arsen

Klúður á sænskri rannsóknarstofu varð til þess að um tíma var talið að arsenmengun frá verksmiðjunni væri fimmfalt meiri en starfsleyfi gerði ráð fyrir. Eldur kom upp í verksmiðjunni um miðjan apríl og í kjölfarið ákvað Umhverfisstofnun að stöðva reksturinn þar til úrbætur hefðu verið gerðar og orsakir lyktarmengunar fundnar. Mánuði síðar var hún ræst á ný með samþykki Umhverfisstofnunar.Talsmenn United Silicon sögðu að búnaður hefði verið lagaður og endurbættur í kjölfar ítarlegrar úttektar norsks ráðgjafarfyrirtækis. Næstu daga bárust tugir ábendinga vegna lyktarmengunar. Sumarið var samfelld hrakfallasaga; eitthvað bilaði eða það kviknaði í, slökkt var á ofninum og hann endurræstur. Þetta ferli endurtók sig í þrígang. Áfram bárust kvartanirnar, bæjarráð fékk nóg og krafðist þess að slökkt yrði á verksmiðjunni þar til botn fengist í málið. Þann 1. september ákvað Umhverfisstofnun svo að stöðva reksturinn og hefur ofninn ekki verið ræstur síðan. 

Lyktarmengun enn ráðgáta

Þrátt fyrir mikla greiningarvinnu tókst ekki að ráða fram úr því hvaða efni ollu lyktarmenguninni. Þá liggur ekki fyrir hvort hún er heilsuspillandi. „Það voru vissulega miklar áhyggjur af því, fólk lýsti áhyggjum og óþægindum hvað eftir annað,“ segir Sigrún hjá Umhverfisstofnun.  Hún segir mengunina hugsanlega orsakast af sammögnunaráhrifum. 

Bágur fjárhagur

Fjárhagur kísilversins var bágur og rýrði afkomu Arion banka, stærsta hluthafa og lánveitanda kísilversins, sem færði niður eign sína um 4,8 milljarða. Lífeyrissjóðir töpuðu yfir milljarði króna. Í júlí dæmdi Gerðardómur kísilverið til að greiða íslenskum aðalverktökum ógreidda reikninga upp á rúmlega milljarð og í ágúst var  United silicon veitt greiðslustöðvun. Um miðjan september tóku Arion banki og fimm lífeyrissjóðir yfir 98,3% hlut í félaginu. Frá því greiðslustöðvunin tók gildi hefur fyrirtækið ekki greitt af milljarða skuldum sínum við Arion banka, lífeyrissjóði og verktaka. Arion banki hefur ábyrgst reksturinn og hefur hann kostað bankann um 200 milljónir króna á mánuði.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/samsett mynd
Magnús Garðarsson, stofnandi og fyrrum forstjóri United silicons.

Í maí ákærði héraðssaksóknar Magnús Garðarsson, stofnanda United Silicon fyrir almannahættubrot og líkamsárás af gáleysi. Hann á að hafa ekið Tesla-bifreið sinni á allt að 183 kílómetra hraða vestur Reykjanesbraut og tekið fram úr fjölda bíla. Hann ók svo aftan á bíl við Hvassahraun, bíllinn hafnaði utan vegar og ökumaðurinn slasaðist. Sá krafði Magnús um milljón í skaðabætur. Síðar áttu eftir að koma fram aðrar kærur á hendur Magnúsi og af öðrum toga. 

 

Þann 11. september síðastliðinn var sagt frá því að stjórn United Silicon hefði kært Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóra og stofnanda fyrirtækisins til embættis héraðssaksóknara vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals. Karen Kjartansdóttir sagði þá í viðtali við fréttastofu að svo virtist sem tilhæfulausir reikningar hefðu verið gefnir út og þeir greiddir í góðri trú af fulltrúum fyrirtækisins.“   Mánuði síðar kærði Arion banki Magnús til hérðassaksóknara. Sú kæra var af sama meiði og kæra stjórnar United Silicon.

Verksmiðjan var ekki tilbúin

Karen segir að þessar kærur hefðu ekki verið lagðar fram hefði Aríon banki ekki lagt félaginu til fjármagn á greiðslustöðvunartímabilinu og kostað rannsóknir og greiningar á stöðunni. Þá hafi líka verið gerðar miklar úttektir á búnaði og komið í ljós að ljósbogaofninn sjálfur sé vel hannaður en ódýr og óvandaður búnaður í kringum hann hafi orsakað tíðar bilanir. „Það hefur verið mat sérfræðinga að það hafi þurft meira til, svo hún teldist fullkláruð, þessi verksmiðja.“ 

 

Enn góður fjárfestingakostur

Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, segir að bankinn muni óska eftir því við skiptastjóra þrotabúsins að ganga að veðum sínum í eignum fyrirtækisins, en bankinn, sem er stærsti kröfuhafi United Silicon, sé einn á fyrsta veðrétti eigna félagsins. Greint var frá því í byrjun janúar að átta hefðu áhuga á því að kaupa verksmiðjuna. Haraldur segir lengra í að verksmiðjan komist í gagnið en vonir stóðu til. Hann á þó ekki von á því að áhrif gjaldþrotsins á sölumöguleika og söluverð verði veruleg. Þessu til stuðnings nefnir hann þrennt. Í fyrsta lagi sé eftirspurn eftir kísilmálmi mikil og heimsmarkaðsverð að hækka. Þetta sé því spennandi fjárfestingarkostur. Í öðru lagi geti verksmiðjan í Helguvík verið komin í gagnið eftir um það bil eitt og hálft ár en það geti tekið um 5 ár að byggja svona verksmiðju frá grunni. Í þriðja lagi segir hann alþjóðlega aðila hafa sýnt verksmiðjunni áhuga. Þeir hafi vitað að svona kynni að fara en það hafi ekki haft sjáanleg áhrif. Þessar þreifingar séu þó á byrjunarstigi.