Gítarleikari Radiohead mögulega með COVID-19

epa06046500 Ed O'Brien of British band Radiohead performs at the Glastonbury Festival of Contemporary Performing Arts 2017 at Worthy Farm, near Pilton, Somerset, Britain, 23 June 2017. The outdoor festival runs from 21 to 25 June.  EPA/NIGEL RODDIS
 Mynd: EPA

Gítarleikari Radiohead mögulega með COVID-19

24.03.2020 - 08:48

Höfundar

Gítarleikarinn Ed O'Brien sem er þekktastur fyrir gítarleik sinn með Radiohead hefur tilkynnt aðdáendum sínum að hann sé líklega smitaður af COVID-19. Þetta tilkynnti hann með færslu á Twitter þar sem fram kom að hann hefði misst bragð- og lyktarskyn og hafi haft flensulík einkenni. Hann bætti jafnframt við að hann sé óðum að ná sér.

Ed O'Brien fór ekki í próf til að athuga hvort hann sé í raun smitaður af COVID-19 og sagði hann í færslu sinni að skortur sé á prófum og hann sé á því að þau séu mikilvægari verr settum hópum í þjóðfélaginu. Hann endar færslu sína á að biðja aðdáendur að fara vel með sjálfa sig og aðra. 

Veikindin koma á óheppilegum tíma fyrir O'Brien þar sem hans fyrsta sólóplata er væntanleg í næsta mánuði. En plötuna gefur hann út undir listamannsnafninu EOB.

Veiran hefur nú þegar haft gríðarleg áhrif á margt sem tengist menningu og listum út um allan heim og er Ed O'Brien ekki fyrsti tónlistarmaðurinn til að smitast af COVID-19. Þá hafa breskir fjölmiðlar greint frá að tekjutap tónlistarfólks nú þegar sé nærri 14 milljónir punda, eða tæplega 2,3 milljarðar íslenskra króna. En þetta sýna niðurstöður úr könnun sem samtök tónlistarfólks í Bretlandi létu gera. Þar kom jafnframt fram að rúmlega 90% svarenda höfðu nú þegar orðið fyrir tekjutapi.