Gissur Páll tók áskorun og söng fyrir nágrannana

Mynd með færslu
 Mynd: Gissur Páll Gissurarson - Facebook

Gissur Páll tók áskorun og söng fyrir nágrannana

14.03.2020 - 16:38

Höfundar

Á Ítalíu hafa verið settar þröngar skorður við samgöngum og er fólk hvatt til að vera heima hjá sér. Ítalar hafa létt hver öðrum lundina með því að standa úti á svölum og syngja fyrir nágrannana.

Móðir almannatengilsins Kristjáns Hjálmarssonar, sem stödd er á Sikiley, varð vör við þetta og sagði syni sínum frá þessu. Kristján brá á það ráð að skora á nágranna sinn í Eskihlíðinni, tenórinn Gissur Páll Gissurarson, að syngja fyrir sína nágranna.

„Ég sá video af þessu í morgun og setti inn í sameiginlega Facebook-síðu blokkarinnar áskorun þar sem ég skoraði á Gissur að gera slíkt hið sama. Svo fékk ég SMS frá konuni hans um að kíkja út á svalir og þar er Gissur Páll að syngja,“ segir Kristján.  

Kristján segir uppátækið hafa vakið mikla gleði meðal nágrannanna, enda sé blokkin í Eskihlíðinni besta blokk í heimi. „Við vorum að klára pöbbkviss milli stigaganga í síðustu viku.

Gissur Páll segir að þetta hafi allt verið gert í gamin í morgun og nágrannar tekið þessu mjög vel. Hann vill þó ekkert segja til um það hvort hann ætli að endurtaka leikinn.

Næstum átján þúsund smit hafa verið greind á Ítalíu og hátt í 1.300 eru látnir. Fólk er hvatt til að vera heima og einungis er ætlast ail þess að það fari út úr húsi til þess að sinna vinnu eða í neyðartilvikum.

Í myndskeiðinu hér að neðan geturðu séð hvernig Ítalar létta sér lund.