Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gíslum bjargað í Búrkína Fasó

10.05.2019 - 12:21
Franskir hermenn.
 Mynd: EPA
Fjórum gíslum var bjargað úr haldi mannræningja í Búrkína Fasó í nótt. Tveir franskir sérsveitarmenn létu lífið í aðgerðunum. Fólkinu var rænt í Benín og það flutt yfir landamærin. Ekki hefur verið gefið út hverjir eða hvaða hópar rændu fólkinu.

Fjórum gíslum var bjargað úr haldi mannræningja í Búrkína Fasó í nótt. Tveir franskir sérsveitarmenn létu lífið í aðgerðunum. Fólkinu var rænt í Benín og það flutt yfir landamærin. Ekki hefur verið gefið út hverjir eða hvaða hópar rændu fólkinu.

Tveir gíslanna voru franskir karlmenn en auk þeirra var bandarískri og suðurkóreskri konu rænt. Frakkarnir voru í safaríferð í þjóðgarði í Benín þegar mannræningjarnir tóku þá höndum en ekki hefur verið greint frá því hvar konunum var rænt. Innfæddur leiðsögumaður mannanna var myrtur við mannránið.

Frakkarnir Laurent Lassimouillas (t.v.) og Patrick Picque sem mannræningjar tóku höndum.
 Mynd: AFP

Vígasveitir íslamista hafa undanfarið staðið fyrir hryðjuverkaárásum í Búrkína Fasó, meðal annars í nágrenni þjóðgarðsins sem er við landamæri ríkjanna. Ekki er vitað hvort mannræningjarnir vorur úr þeirra röðum að því er segir í frétt AFP.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti þakkaði franska hernum, þeim sem þátt tóku í aðgerðinni, og vottaði hermönnunum sem létu lífið virðingu sína. Varnarmálaráðherra Frakklands Florence Parly þakkaði yfirvöldum í Benín, Búrkína Fasó og Bandaríkjunum fyrir ómetanlega aðstoð við björgun gíslanna.

Þúsundir franskra hermanna og sérsveitarmanna eru á hinu svokallaða Sahel-svæði í norðvesturhluta Afríku þar sem mikil átök hafa staðið undanfarin misseri.

 

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV