Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gísli Freyr og Evelyn sömdu um bætur

11.03.2015 - 11:34
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðamaður innanríkisráðherra, og Evelyn Glory Joseph, hafa samið um skaðabætur. Þetta staðfestir Katrín Oddsdóttir, lögmaður Evelyn, í samtali við fréttastofu. Hún vill ekki gefa upphæðina upp - þetta sé niðurstaða sem báðir aðilar geti verið sáttir við.

Fyrirtaka í málinu var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Því  lauk með formlegri dómssátt. Katrín segir að skjólstæðingur sinn þurfi núna að fá frið til að byggja upp sitt líf. Evelyn krafðist þess að Gísli Freyr yrði dæmdur til að greiða henni 4,5 milljónir króna.

Í morgun var einnig fyrirtaka í skaðabótamáli Tonys Omos gegn Gísla Frey. Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður Tonys, segir að máli hans hafi verið frestað tímabundið, verið sé að vinna að einhvers konar sáttum. Stefán Karl segist ekki vita hvert framhaldið verði né hvenær málið komi aftur fyrir dóm. Omos krafði Gísla Frey um 5 milljónir.

Í febrúar náðist samkomulag milli Gísla Freys og íslenskrar konu sem nafngreind var í minnisblaðinu sem lekið var til fjölmiðla. Hún fór fram á 2,5 milljónir í bætur.

 

Gísli var í nóvember dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að leka umræddu minnisblaði til fjölmiðla.