Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Girða þarf fyrir gistingu á svörtum markaði

03.01.2016 - 20:41
Ferðamannagisting á svörtum markaði getur grafið undan hótelum á landsbyggðinni sem eiga fullt í fangi með að halda opnu á veturna. Hóteleigendur á Egilsstöðum vilja að girt sé fyrir svarta heimagistingu til að vernda heilsársstörf í ferðaþjónustu.

Á gistihúsinu á Egilsstöðum hafa eigendurnar fjárfest fyrir 400 milljónir og halda hóteli og veitingastað opnum allt árið. Á sama tíma má sjá óskráða gististaði auglýsta á umtalaðri heimasíðu Airbnb, suma án leyfa.

„Það er náttúrulega ekkert í lagi að það séu íbúðir sem eru án leyfa og borgi ekki skatta og skyldur,“ segir Gunnlaugur Jónasson, hótelstjóri á gistihúsinu Egilsstöðum.

„Þetta munar alltaf eitthvað, sérstaklega um veturinn, þá munar um hverja krónu. Þetta er þungur rekstur á veturna en við viljum hafa fyritæki sem er hér allt árið bæði fyrir okkur og fyrir samfélagið.“

Þráinn Lárusson, hóteleigandi á Héraði, segir svarta starfsemi hafa mikil áhrif. Hann rekur meðal annars Hótel Valaskjálf sem hefur verið opið í vetur. „Hérna á Austurlandi þar sem við búum við mjög litla vetrarferðamennsku er hún bara ekki til skiptanna. Fyrir okkur sem erum að reyna að halda úti hóteli yfir vetrarmánuðina með starfsfólki þá er þetta ekkert grín. Þetta er búið að viðgangast í langan tíma og í rauninni núna er þetta mun meira með þessum nýja Airbnb-markaði sem opnar enn meira þessa möguleika.“

Á Gistihúsinu á Egilsstöðum starfa að minnsta kosti 14 á veturna. Það borgar þrefallt hærri fasteignagjöld en óskráðir gististaðir. Fljótsdalshérað hefur nú útbúið lista yfir alla gististaði líka þá sem eru óskráðir og án leyfa. Frá áramótum hækka fasteignagjöld hjá þeim.

„Við þurfum að hafa þessa þjónustu líka en hún þarf hinsvegar að vera uppi á yfirborðinu og þessir aðilar þurfa að sitja við sama borð og við,“ segir Þráinn.

„Við þurfum að vera hér með fullkomið brunakerfi og brunastiga og alla græjur og að sjálfsögu á það að vera í lagi en maður spyr sig hvernig er svona í venjulegu húsnæði sem er leigt út,“ segir Gunnlaugur.