Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Gígurinn á stærð við flugvöll

22.04.2010 - 14:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF flaug yfir gossvæðið í gær. Í flugskýrslu þeirra er stærð gígsins á Eyjafjallajökli sett fram í nýtt samhengi með myndum úr ratsjá. Þar segir að Reykjavíkurflugvöllur myndi passa ágætlega inn í aðalgíg jökulsins.

Í flugskýrslu Landhelgisgæslunnar segir: Þessi mynd tekin til gamans og glöggvunar. Hún er í sama skala og myndirnar sem teknar eru af gígnum hér að neðan. Reykjavíkurflugvöllur passar fínt inn í aðalgíg Eyjafjallajökuls.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, heimsótti í morgun Samhæfingarstöðina í Skógarhlíð. Hann kynnti sér starfsemi stöðvarinnar.

Á upplýsingafundum sérfræðinga í Skógarhlíð og á Hvolsvelli í morgun kom fram að lítil aska féll úr gosinu í Eyjafjallajökli í gær og gosvirkni var róleg á yfirborðinu. Á fundi í Skógarhlíð í morgun voru á annan tug erlendra blaðamanna auk fulltrúa erlendra sendiráða sátu fundinn og hlýddu á spár um veður og öskudreifingu. Fram kom á fundinum að yfirborð eldstöðvarinnar er rólegt og þar sem vatn virðist lítið hefur sprengivirkni farið minnkandi. Órói kemur áfram fram á mælum Veðurstofunnar sem þýðir að virkni er áfram í jarðskorpunni.

Að sögn Kristínar Þórðardóttir, staðgengils sýslumanns, eru 25 teymi með 120 félögum björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, víðs vegar að af landinu að aðstoða bændur á um 20 bæjum undir Eyjafjöllum með ýmsum hætti. Bændur eru hvattir til að hafa samband við vettvangsstjórn á Hvolsvelli í síma 487-8302 ef þeir þurfa á aðstoð að halda.