Ghani endurkjörinn - Abdullah kærir úrslitin

22.12.2019 - 07:46
epa07543939 Afghan president Ashraf Ghani speaks during the closing ceremony of the Afghan government Loya Jerga (lit. Grand Assembly) in Kabul, Afghanistan, 03 May 2019. Afghan president Ghani announced that as a goodwill act for peace with the Taliban movement his government is releasing some 175 Taliban prisoners from jail and called on the Taliban to show their willing to reach a long-term ceasefire.  EPA-EFE/JAWAD JALALI
Ashraf Ghani, forseti Afganistans. Mynd: EPA-EFE - EPA
Ashraf Ghani, sitjandi forseti Afganistans, var endurkjörinn í kosningunum í haust. Niðurstöður kosninganna voru birtar fyrst nú í morgun, nærri þremur mánuðum eftir að atkvæði voru greidd.

Bráðabirgðaúrslit áttu að verða ljós þegar 19. október. Bið varð á þeim vegna tæknilegra örðugleika og ásakana nokkurra frambjóðenda um kosningasvindl. Búist var við því að þeir Ghani og Abdullah Abdullah, hægri hönd hans í ríkisstjórn Afganistans, myndu bítast um embættið. Til þess að hljóta embættið eftir fyrstu umferð verður frambjóðandi að hljóta yfir helming greiddra atkvæða, sem Ghani tókst með naumindum. Samkvæmt kjörstjórn Afganistans hlaut hann 50,64 prósent atkvæða, en Abdullah var næstur með tæplega 40 prósent atkvæða. 

Frambjóðendur mega kæra úrslitin. Tilkynning barst frá framboðsskrifstofu Abdullah um leið og úrslitin birtust um að það yrði gert. Í tilkynningunni sagði að þar á bæ vildu menn hafa það á hreinu að úrslit þessara svikakosninga yrðu ekki samþykkt fyrr en öllum kröfum þeirra yrði mætt. 

Forsetakosningarnar í september áttu að vera þær best heppnuðu í ungu lýðræði Afganistans. Að sögn AFP fréttastofunnar varð hins vegar að ógilda um eina milljón þeirra 2,7 milljóna atkvæða sem greidd voru vegna ýmissa mála. Kosningaþátttaka var því sú minnsta í sögu hins unga lýðræðis.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi