Getur unnið þrenn verðlaun á tæpum tveimur vikum

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV

Getur unnið þrenn verðlaun á tæpum tveimur vikum

13.01.2020 - 18:12

Höfundar

Hildur Guðnadóttir, sem var í dag tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina við Joker, verður á ferð og flugi næstu vikur. Mánudaginn 27. janúar skýrist hvort hún fái Grammy fyrir tónlistina í sjónvarpsþáttunum Chernobyl, fimm dögum seinna er komið að bresku Bafta-verðlaununum og vikuna eftir kemur í ljós hvort hún verði fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Óskarsverðlaun.

Sigurganga Hildar að undanförnu hefur verið með miklum ólíkindum.  Henni var falið að semja tónlistina við sjónvarpsþættina Chernobyl og fór heldur óhefðbundna leið, tók upp hljóð í kjarnorkuveri í Litháen og notaði þau fyrir hljóðrásina.  „Ég vildi gefa kjarnorkuverinu og geislavirkninni eigin rödd.  Mig langaði til að skilja hvað fór í gegnum huga fólks þegar það reyndi að átta sig á þessu stórslysi,“ sagði Hildur í viðtali við breska blaðið Guardian. Hún hlaut hin virtu Emmy-sjónvarpsverðlaun fyrir tónlistina og er tilnefnd til Grammy-verðlauna sem verða afhent í Los Angeles mánudaginn 27. janúar. 

Hafi tónlistin við Chernobyl komið nafni Hildar á kortið má segja að Joker hafi gert hana að stjörnu. Bæði leikstjórinn Todd Phillips og aðalleikarinn Joaquin Phoenix hafa farið lofsamlegum orðum um tónlistina og greint frá því í viðtölum að hljóðheimur Hildar hafi leikið algjört lykilhlutverk við að ná fram rétta andrúmsloftinu. Phillips fór nokkuð óhefðbundna leið þegar hann réð Hildi því hún var beðin um að semja tónlistina áður en myndin fór í tökur og gat því aðeins stuðst við handritið.

Hildur vann Golden Globe-verðlaunin fyrir Joker og er tilnefnd til bæði Bafta - og Óskarsverðlauna.  Bafta-verðlaunin verða afhent 2. febrúar en Óskarinn viku seinna eða 9. febrúar.

Það eru þó engir smákarlar sem Hildur etur kappi við á Óskarnum.  John Williams hefur til að mynda unnið fimm Óskarsverðlaun og var tilnefndur í 52. sinn núna. Sem er býsna merkilegt því það kom fimm ára tímabil þar sem hann var ekki tilnefndur. Meðal annarra keppinauta má nefna Randy Newman  sem hefur unnið tvenn Óskarsverðlaun eins og Alexandre Desplat.

Verðlaunasaga Íslendinga á þessum stóru hátíðum er ekki löng. Klipparinn Valdís Óskarsdóttir vann til að mynda Bafta-verðlaunin árið 2005 fyrir Eternal Sunshine of the Spotless mind.  Jóhann Jóhannsson var tilnefndur til þriggja Bafta-verðlauna og tvívegis var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna og Golden Globe.  Hann vann Gullhnöttinn einu sinni, fyrir The Theory of Everything.  

Björk Guðmundsdóttir var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir Dancer in the Dark ásamt Sjón og Lars von Trier og var sömuleiðis tilnefnd til tveggja Golden Globe-verðlauna. Annars vegar fyrir leik í myndinni og svo fyrir lagið I've Seen it All. Þá voru Börn náttúrunnar tilnefnd sem besta erlenda myndin og Síðasti bærinn tiilnefnd sem besta stuttmyndin.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Joker með flestar tilnefningar til Óskarsverðlauna

Kvikmyndir

Hildur tilnefnd til Óskarsverðlauna

Tónlist

Hildur Guðnadóttir verðlaunuð af gagnrýnendum

Tónlist

Hildur Guðnadóttir tónlistarmaður ársins hjá Grapevine