„Getur tekið hundruð ára að brotna niður“

05.02.2017 - 19:19
Vitundarvakning hefur orðið hjá Íslendingum um að flokka og endurvinna plastúrgang. Plastmengun í hafi getur reynst dýraríkinu gríðarlega erfið enda getur það tekið plastið hundruð ára að brotna niður.

Í vikunni synti rúmlega sex metra langur gáshnallur ítrekað á land við Björgvin í Noregi og þegar hann var tekinn af lífi kom í ljós að hann hafði innbyrt meira en þrjátíu plastpoka. Slíkt mál hefur ekki enn komið upp á Íslandi en plastmengun í hafi er þó mikið vandamál.

Sigríður Kristinsdóttir, sérfræðingur í haf- og vatnsstreymi hjá Umhverfisstofnun, segir að hreinsunarverkefni hafi gengið vel. „Umhverfisstofnun hefur tekið þátt í verkefni við Hornstrandir og Rauðasand og Surtsey þar sem er verið að hreinsa fjörurnar. Það hefur verið í samvinnu við heimamenn, Landhelgisgæslan hefur tekið þátt í þessu verkefni á t.d Hornströndum og það hefur verið farið markvisst í þessar fjörur og hreinsað upp allt rusl og það hefur bara gengið mjög vel.“

Blái herinn hefur í mörg ár staðið fyrir hreinsunarátaki og vitundarvakningu landsmanna á úrgangslosun í hafið. Tómas J. Knútsson, formaður Bláa hersins, segir að alþingismenn þurfi að ranka við sér. „Í gegnum tíðina þá hafa sorphirðumál okkar verið í lamasessi og ef við getum ekki tekið betur á móti sorpi og farið að ástunda hér endurvinnslu og flokkun þá verður þetta bara viðvarandi verkefni.“ segir Tómas. „Ég myndi vilja sjá að alþingismenn tækju þetta mikið, mikið harðar og betur upp og beittu sér að því stóra máli að mengun hafsins í kringum Ísland. Það hefur gígantísk áhrif til frambúðar ef við gerum ekki neitt.“

Sigríður segir Umhverfisstofnun hvetja fólk til þess að minnka plastnotkun og flokka ruslið. „Plast er náttúrulega mjög lengi að brotna niður, það tekur áratugi og jafnvel hundruð ára fyrir plast að brotna niður og það segir sig sjálf að þegar það safnast upp þá getur það ekki verið gott. Umhverfisstofnun hefur verið að agitera fyrir því að fólk noti minna plast því við losnum náttúrulega aldrei við plastið, það verður alltaf eitthvað en það er svo margt sem við getum gert til að minnka plastnotkun og svo náttúrulega þetta klassíska, að flokka.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi