Útvarpsleikritð SOL verður flutt í fjórum þáttum í Útvarpsleikhúsi Rásar 1 yfir páskana. Hægt verður að hlusta á alla þættina á menningarvef RÚV á skírdag.
Davíð er einangraður ungur maður sem býr einn í stúdíóíbúð og upplifir heiminn að stóru leyti í gegnum tölvuna sína. Í tölvuleikjaheiminum fær Davíð kærkomið tækifæri til að vera sú útgáfa af sjálfum sér sem hann vill vera og það sem mikilvægast er, hann fær að vera með hinni dularfullu SOL.
SOL er íslensk stelpa sem hefur slegið hvert stigametið á fætur öðru í vinsælum bardagaleik og er orðin fræg á meðal spilara leiksins um allan heim. Allir vilja þekkja SOL, allir vilja fá að vera í liði SOL og allir þrá viðurkenningu og aðdáun SOL. Davíð trúir því ekki að hann geti verið svona lánsamur þegar SOL spjallar við hann í netheimunum og með þeim þróast innilegt vinasamband. Með henni líður honum eins og hann fái viðurkenningu og skilning sem hann hefur ekki áður þekkt.
Davíð ákveður að tímabært sé að horfast í augu við veruleikann hinum megin við útidyrnar, ef það er það sem þarf til til að fá að hitta hina mikilfenglegu SOL í eigin persónu. Atburðarrásin sem á eftir fylgir er hjartnæm, mannleg og á köflum lyginni líkust, samkvæmt höfundum verksins. Sagan er byggð á raunverulegum atburðum úr lífi drengs sem lifði og hrærðist innan tölvuleikjaheimsins.