Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Getur stafræn ást verið raunveruleg?

Mynd: hordur sveinsson / Hörður Sveinsson

Getur stafræn ást verið raunveruleg?

17.04.2019 - 09:49

Höfundar

Útvarpsleikhúsið frumflytur um páskana útvarpsleikritið SOL eftir Hilmi Jensson og Tryggva Gunnarsson, en leikritið var upphaflega sett upp í Tjarnarbíói árið 2017 og hlaut mikið lof. 

Útvarpsleikritð SOL verður flutt í fjórum þáttum í Útvarpsleikhúsi Rásar 1 yfir páskana. Hægt verður að hlusta á alla þættina á menningarvef RÚV á skírdag.

Davíð er einangraður ungur maður sem býr einn í stúdíóíbúð og upplifir heiminn að stóru leyti í gegnum tölvuna sína. Í tölvuleikjaheiminum fær Davíð kærkomið tækifæri til að vera sú útgáfa af sjálfum sér sem hann vill vera og það sem mikilvægast er, hann fær að vera með hinni dularfullu SOL.

SOL er íslensk stelpa sem hefur slegið hvert stigametið á fætur öðru í vinsælum bardagaleik og er orðin fræg á meðal spilara leiksins um allan heim. Allir vilja þekkja SOL, allir vilja fá að vera í liði SOL og allir þrá viðurkenningu og aðdáun SOL. Davíð trúir því ekki að hann geti verið svona lánsamur þegar SOL spjallar við hann í netheimunum og með þeim þróast innilegt vinasamband. Með henni líður honum eins og hann fái viðurkenningu og skilning sem hann hefur ekki áður þekkt. 

Davíð ákveður að tímabært sé að horfast í augu við veruleikann hinum megin við útidyrnar, ef það er það sem þarf til til að fá að hitta hina mikilfenglegu SOL í eigin persónu. Atburðarrásin sem á eftir fylgir er hjartnæm, mannleg og á köflum lyginni líkust, samkvæmt höfundum verksins. Sagan er byggð á raunverulegum atburðum úr lífi drengs sem lifði og hrærðist innan tölvuleikjaheimsins.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hilmir Jensson og Tryggvi Gunnarsson höfundar verksins

Um þær mundir sem sýningin rataði á fjalir Tjarnarbíós heyrði Menningin á RÚV í höfundunum. „Þetta er saga sem ég heyrði 2005 og var sjálfur að spila tölvuleiki mikið þá,“ segir Hilmir Jensson. „Við erum að leika okkur að þessum mörkum, hvar fíknin byrjar og gleðin endar,“ bætir Tryggvi við. „Svo í kjarnanum á þessu öllu er spurningin um ást, hvenær hún er raunveruleg og hver við sem stöndum fyrir utan þetta erum til að dæma.“

Hilmir tekur í sama streng. „Það er svo auðvelt fyrir okkur að segja að þetta fólk eigi sér bara ekkert líf. Um leið og maður byrjar hinsvegar að kafa í þetta sér maður að þetta eru heilir heimar og fólk á sér mjög rík líf innan í þessum tölvuleikjum. Við erum öll með annað sjálf, á Facebook, Tinder eða Twitter. Það eru allir með annan front.“

Guðrún Baldvinsdóttir fjallaði um leikverkið í Víðsjá og sagði meðal annars: „Sýningin SOL kveikir í manni, hún vekur mann til lífsins og til umhugsunar. SOL er sýning um kima nútímans sem alltof lítið er fjallað um og er sjaldan hluti af því menningarlega umhverfi sem leikhúsið er hluti af. Ég get ekki mælt nógu mikið með sýningunni SOL.“

Með aðalhlutverk fara Salóme R. Gunnarsdóttir, Hilmir Jensson og Kolbeinn Arnbjörnsson, en fyrsti þátturinn verður frumfluttur í Útvarpsleikhúsinu á Skírdag.

Hægt er að horfa á viðtalið við Tryggva og Hilmi úr Menningunni í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Ráða morðgátu í Flatey

Leiklist

Fólk getur átt ríkt líf inni í tölvuleikjum

Menningarefni

Ástarsaga sem kveikir í manni