Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Getur haft áhrif á stöðu 80 barna

26.09.2017 - 23:44
Frá þingsetningu 20016.
Nichole Leigh Mosty var framsögumaður nefndarálits meirihlutans Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Allsherjarnefnd samþykkti fyrir sitt leyti frumvarp þar semkveðið er á um að reglur um uppreist æru verði afnumdar. Nefndin telur að með frumvarpinu sé verið að bregðast við úreltu fyrirkomulagi. Meirihluti nefndarinnar taldi einnig rétt að samþykkja frumvarp um breytingu á útlendingalögum óbreytt en það getur haft áhrif á stöðu 80 barna. Sjálfstæðismenn skiluðu minnihlutaáliti og óttast að breytingarnar geti orðið til þess að auka hættu á mansali eða smygli á börnum.

Málin tvö verða líklega samþykkt á Alþingi í kvöld eða í nótt.  Breið samstaða er um frumvarpið um uppreist æru enda eru allir formenn flokkanna, sem sæti eiga á Alþingi, flutningsmenn frumvarpsins

Sama á ekki við um frumvarpið um breytingar á útlendingalögum en allir formenn flokkanna utan formanns Sjálfstæðisflokksins eru flutningsmenn þess frumvarps.

Það  felur í sér breytingar á lögum um útlendinga og hvenær umsókn barns um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnislegrar meðferðar og hvenær heimilt sé að veita barni sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. 

Meðal þeirra sem komu fyrir nefndina voru fulltrúar frá Barnaverndarstofu, Rauða Kross Íslands, ríkislögreglustjóra og Alda Hrönn Jóhannesdóttir frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar kemur fram að breytingin geti haft áhrif á stöðu um 80 barna og því sé ljóst að um mikilvæga breytingu sé að ræða.  Þá segir enn fremur að  í frumvarpinu sé lagt til að breytingarnar taki að sinni aðeins til umsókna sem borist hafa fyrir gildistöku laganna. „Brýnt er að huga að því hvernig styrkja megi stöðu barna sem umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi til frambúðar og að framkvæmd laganna verði í sem bestu samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV