„Getur ekki með nokkru móti sýnt hver hann er“

09.10.2018 - 19:37
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Lögregla hér á landi starfar með erlendum lögregluyfirvöldum að því að upplýsa hvernig níu Úkraínumenn hafi komist yfir litháísk vegabréf. Þeir störfuðu hér og voru handteknir í morgun. Lögregla ætlar að fara fram á gæsluvarðhald yfir einum þeirra.

Hátt í 40 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðinni sem beindist gegn starfsmönnum og eiganda starfsmannaleigunnar Manngildis. Rannsókn málsins hófst í september þegar grunur vaknaði um að starfsmenn starfsmannaleigunnar hefðu sótt um íslenskar kennitölur á grundvelli falsaðra skilríkja. Átta starfsmannanna eru úkraínskir ríkisborgarar en einn af þeim getur ekki gert grein fyrir sér.

„Erlendu ríkisborgararnir hafa verið yfirheyrðir í dag. Átta af þeim munu sæta tilkynningarskyldu með reglubundnum hætti til lögreglu en þessi eini sem eftir stendur verður færður fyrir dómara áður en dagurinn líður þar sem verður gerð krafa um gæsluvarðhald. Hann getur ekki með nokkru móti sýnt hver hann er,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn.

Mennirnir framvísuðu skilríkjum frá Litháen, og fengu íslenskar kennitölur á grundvelli þeirra. Lögreglan hér á landi vinnur því að rannsókn málsins í samstarfi við erlend lögregluyfirvöld. Lögregla handtók tíu vegna málsins í morgun, á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem mennirnir búa. Eiganda starfsmannaleigunnar var sleppt að lokinni skýrslutöku.

Liggur eigandi fyrirtækisins undir grun? „Allir sem voru handteknir voru undir hatti einnar starfsmannaleigu. Um starfsmannaleiguna get ég ekki tjáð mig frekar,“ segir Ásgeir. Hann segir jafnframt að tryggja þurfi að fólk geti ekki fengið kennitölu hér á landi nema það sanni deili á sér.  

Lögmaður starfsmannaleigunnar segir handtökuna hafa komið á óvart. Hann segir að eigandanum, Ingimari Skúla Sævarssyni, ekki hafa verið kunnugt um að mennirnir væru komnir hingað til lands á fölsuðum skilríkjum. Á því beri hann enga ábyrgð. 

„En hér er það fólkið, ef þetta reynist rétt að svindla á vinnuveitandanum. Það er hann sem ber tapið á því. Í rauninni er hann þolandinn. Athugaðu það. Það er hann sem er þolandinn. Hver fer verst þúr því það er vinnuveitandinn. Þetta er starfsmaðurinn að níðast á vinnuveitandanum,“ segir Tryggvi Agnarsson, lögmaður Ingimars.

Ingimar Skúli var einnig eigandi og stjórnandi Verkleigunnar sem fjallað var um í fréttaskýringaþættinum Kveik í síðustu viku. Verkleigan fór í þrot fyrr á þessu ári og fyrrverandi starfsmenn hennar reka nú sína starfsmannaleiguna hvor: Manngildi og Menn í vinnu. 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi