Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Getur ekki hækkað laun lögreglunnar

27.09.2011 - 11:51
Forsætisráðherra segir ríkisstjórnina ekki geta hækkað laun lögreglumanna. Þó sé verið að skoða hvernig hægt sé að koma til móts við kröfur þeirra á annan hátt. Ríkisstjórnin hefur á síðustu tveimur fundum rætt hvernig koma eigi til móts við kröfur lögreglumanna. Forsætisráðherra segir að ríkið geti hins vegar ekki tekið fram fyrir hendurnar á gerðardómi.

Óánægja lögreglumanna með kjör sín hefur verið áberandi síðustu daga.

Í gær sögðu allir níu liðsmenn óeirðarflokks lögreglunnar í Eyjafirði sig úr flokknum. Þeir létu á fundi sínum í gær, í ljósi óánægju með nýfallinn gerðadóm um kjör lögreglumanna og þau launakjör sem ríkisvaldið bjóði þeim.

Þá svíður sérsveitarmönnum að þjálfun þeirra til erfiðra sérverkefna sé einskis metinn í launum. Lögreglumenn í óeirðaflokknum á Suðurnesjum hafa einnig í hyggju að segja sig úr honum.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur áhyggjur af þessum aðgerðum lögreglumanna.

„Þeir eru mjög mikilvægir í þjóðfélaginu og við viljum auðvitað skoðað hvort eitthvað sé hægt að gera en það er ekki hægt að koma til móts við þá með beinum launahækkunum eða neinu slíku í framhaldi af niðurstöðu gerðardóms, ég held að það gangi ekki upp. En við munum hugsanlega ræða við þá síðar.“

Jóhanna segir að hugsanlega sé hægt að koma til móts við lögreglumenn með öðrum hætti en með beinum launahækkunum. Ríkisstjórnin sé öll af vilja gerð til að koma til móts við þá á eðlilegan og sanngjarnan hátt.

„Þeir hafa miklar áhyggjur af sínum öryggismálum. Þeir eru undir miklu álagi og það má skoða ýmislegt í sambandi við það. En hér er engin niðurstaða fengin. Við erum fyrst og fremst að fara yfir þá erfiðu stöðu sem upp er komin.“