Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Getum tekið við fleirum“ segir Katrín

19.09.2015 - 19:40
Mynd: Skjáskot / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, fagnar því að ríkisstjórnin ætli að verja tveimur milljörðum til málefna flóttamanna og hælisleitenda næstu tvö árin. Hún hefði viljað sjá Ísland taka við fleiri flóttamönnum. „Við getum tekið á móti fleirum og við getum byrjað strax.“

Ríkisstjórnin kynnti í dag tillögur sínar varðandi flóttamannavandann. Verja á 2 milljörðum næstu tvö árin til þessa málaflokks og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði í samtali við fréttastofu eftir fundinn að hann ætti allt eins von á því að Íslendingar tækju á móti hundrað flóttamönnum á þessu ári.

Katrín segist fagna því að ríkisstjórnin ætli að verja þessum fjármunum til þessa málaflokks. Hún kveðst þó telja að Ísland ætti að taka við fleirum og að það sé hægt strax að hefjast handa - það hafi meðal annars komið fram í máli Rauða krossins.

Hún bendir þó á að þetta mál sé ekki átaksverkefni - til að mynda verði að skoða Dyflinnarreglugerðina.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV