Á gráum lista vegna ónógra varna
Árið 1991 gekk Ísland til samstarfs við FATF, sem er alþjóðlegur aðgerðahópur gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og skuldbatt sig til þess að samræma íslenska löggjöf tilmælum hópsins. Það hefur þó ekki tekist betur til en svo að Ísland er nú á svokölluðum gráum lista yfir ósamvinnuþýð ríki.
„Það er náttúrulega mjög slæmt að vera komin á þennan lista, fyrir orðspor landsins, fyrir orðspor fjármálafyrirtækja í landinu og líka fyrirtækin í landinu,“ segir Ásgeir Brynjar Torfason, sérfræðingur í fjármálamörkuðum. Vera Íslands á listanum geti gert fyrirtækjum á alþjóðamarkaði erfitt fyrir.
„Við getum ekki bara kennt vondum útlendingum um það sem er gagnrýnt hjá okkur heldur verðum við að líta í eigin barm og hugsa; hvað getum við gert til að ávinna okkur traustið?,“ segir Ásgeir og vísar í viðbrögð Íslendinga við því að Bretar fyrstu eigur Íslendinga í efnahagshruninu í krafti hryðjuverkalaga.
Ásgeir segir miklu skipta núna að við sínum eftirlit með peningaþvætti í verki. „Við verðum að ávinna okkur traust, með því að sýna bæði að við setjum reglurnar og lögin en líka - og ekki síður mikilvægt að við fylgjum því eftir, í því hvernig við gerum hlutina, hvernig við förum eftir reglunum.“