Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Getum ekki bara kennt vondum útlendingum um“

Mynd: RÚV / RÚV
Tilkynningum vegna gruns um peningaþvætti hefur fjölgað verulega eftir að aukin áhersla var lögð á eftirlit með því, í kjölfar gagnrýni alþjóðlegs aðgerðarhóps gegn peningaþvætti. Erfitt er að segja til um hvort peningþvætti hafi viðgengist á meðan eftirliti var ábótavant.

Á gráum lista vegna ónógra varna

Árið 1991 gekk Ísland til samstarfs við FATF, sem er alþjóðlegur aðgerðahópur gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og skuldbatt sig til þess að samræma íslenska löggjöf tilmælum hópsins. Það hefur þó ekki tekist betur til en svo að Ísland er nú á svokölluðum gráum lista yfir ósamvinnuþýð ríki
 
„Það er náttúrulega mjög slæmt að vera komin á þennan lista, fyrir orðspor landsins, fyrir orðspor fjármálafyrirtækja í landinu og líka fyrirtækin í landinu,“ segir Ásgeir Brynjar Torfason, sérfræðingur í fjármálamörkuðum. Vera Íslands á listanum geti gert fyrirtækjum á alþjóðamarkaði erfitt fyrir.

„Við getum ekki bara kennt vondum útlendingum um það sem er gagnrýnt hjá okkur heldur verðum við að líta í eigin barm og hugsa; hvað getum við gert til að ávinna okkur traustið?,“ segir Ásgeir og vísar í viðbrögð Íslendinga við því að Bretar fyrstu eigur Íslendinga í efnahagshruninu í krafti hryðjuverkalaga.

Ásgeir segir miklu skipta núna að við sínum eftirlit með peningaþvætti í verki. „Við verðum að ávinna okkur traust, með því að sýna bæði að við setjum reglurnar og lögin en líka - og ekki síður mikilvægt að við fylgjum því eftir, í því hvernig við gerum hlutina, hvernig við förum eftir reglunum.“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Viðtal: Ásgeir Brynjar Torfason, sérfræðingur í fjármálamörkuðum

Lítið eftirlit með reiðufjárviðskiptum

Samkvæmt áhættumati ríkislögreglustjóra er mikil hætta á peningaþvætti í tengslum við afléttingu fjármagnshafta, skattsvik, störf lögmanna, einkahlutafélög og falið eignarhald þeirra, en líka í tengslum við peningasendingar, reiðufjárviðskipti og spilakassa. 

„Viðskipti sem fara fram með reiðufé eru órekjanleg, það eru engar sérstakar hömlur á reiðufjárviðskiptum, t.d. ekkert sem bannar slík viðskipti á tilteknum tímum sólarhringssins eins og þekkist í útlöndum. Annað er flutningur reiðufjár milli landa – það er tiltölulega auðvelt að skipta út íslenskum krónum og flytja á milli landa, það hefur ekki verið virkt eftirlit með útflutningi reiðufjár,“ segir Birgir Jónasson, lögfræðingur hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra.

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Viðtal: Lögfræðingur hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra

Samkvæmt skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra starfa glæpahópar frá í það minnsta sjö þjóðríkjum á Íslandi og einn þeirra stjórnar kókaínmarkaðnum hér á landi. Fram kemur í skýrslu FATF að slík glæpagengi velti hundruð milljónum króna á ári hérlendis.

„Til dæmis eru vísbendingar um að albanska mafían sé búin að koma sér hérna fyrir,“ segir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. „Þessu fylgir auðvitað að menn flytja ávinninginn úr landi, það er forsenda þess að stunda þessa glæpastarfsemi að koma peningunum úr landi með einum eða öðrum hætti og þetta eykur þá hættuna á peningaþvætti.“

Sjá einnig: Glæpahópar notfæra sér þjónustukerfi ríkisins

Helgi Magnús var saksóknari efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á árunum 2006 til 2011. Hann segir að fyrir hrun hafi verið lítill skilningur á þörf fyrir rannsókn efnahagsbrota. „Peningaþvættisskrifstofan var hluti af deildinni en samt sjálfstæð eining og það var einn starfsmaður sem var þar, og kannski ekki einu sinni í fullu starfi. Það var enginn áhugi á að hafa þetta neitt sterkara en þetta,“ segir Helgi Magnús. „Ábyrgðin á þeim úrræðum sem lögreglan hefur og efnahagsbrotadeild á þessu tímabili er náttúrulega alltaf hjá þeim sem halda um pyngjuna sem er Alþingi.“

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Viðtal: Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari

Ásgeir Brynjar tekur undir það að eftirliti með peningaþvætti hafi verið ábótavant. „Við vorum ekki að sinna því nógu vel hér á landi og það var lengi búið að liggja fyrir, að við vorum ekki að sinna því nógu vel, fyrsta skýrslan held ég að hafi komið árið 2006, þannig að jafnvel fyrir hrun var byrjað, af þessum erlendu aðilum, að gagnrýna okkur fyrir að horfa ekki nóg á þennan málaflokk,“ segir Ásgeir.

Aukið eftirlit og bætt regluverk eftir athugasemdir FATF

Í dag er eftirlit með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á höndum þrettán aðila; dómsmálaráðuneytis, stýrihóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, ríkisskattstjóra, skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, tollstjóra, héraðssaksóknara, lögreglunnar, skattrannsóknarstjóra, ríkislögreglustjóra, utanríkisráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fjármálaráðuneytis, og Fjármálaeftirlitsins. Stjórnvöld hafa unnið ötullega að því undanfarin misseri að koma eftirlitinu í lag, en mjög hefur verið þrýst á það af hálfu FATF.

Sjá einnig: Ísland komið á gráan peningaþvættislista FATF

Dómsmálaráðuneytið fer með yfirstjórn málaflokksins og skipar stýrihóp um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem vinnur að samhæfingu aðgerða. Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með því að endurskoðunarfyrirtæki, lögmannsstofur og fasteignasölur uppfylli eftirlitsskyldur sínar gagnvart sínum umbjóðendum, skrifstofa fjármálagreininga lögreglu tekur á móti tilkynningum um viðskipti þar sem grunur leikur á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, greinir þær og kemur þeim áfram til frekari rannsóknar. Tollstjóri sér um eftirlit með inn- og útflutningi, héraðssaksóknari fer með ákæruvald, lögreglan annast rannsóknir brota undir stjórn héraðssaksóknara eða lögreglustjóra, skattrannsóknarstjóri fer með rannsókn skattalagabrota og ríkislögreglustjóri sér um gerð áhættumats og annast rannsóknir á málum sem tengjast hryðjuverkum. Hlutverk Fjármálaeftirlitsins í þessu er að hafa fylgjast með því að fyrirtæki á fjármálamarkaði uppfylli sínar eftirlitsskyldur. 

„Ef að þau verða vör við eða vaknar grunur um að viðskiptavinur sé að misnota fyrirtækin til að þvætta peninga þá ber fyrirækjunum að tilkynna það til lögreglu. Þannig að það er ekki hlutverk Fjármálaeftirlitsins að rannsaka grun um slík brot heldur fer það beint til lögreglu og síðan í gegnum dómskerfið þegar lögregla telur að það hafi sannast að um þetta sé að ræða,“ segir Unnur Gunnarsdóttir forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Viðtal: Unnur Gunnarsdóttir forstjóri Fjármálaeftirlitsins

Mikil fjölgun mála til rannsóknar

Tilkynningum um grun um peningaþvætti hefur fjölgað mjög undanfarið. Peningaþvættismálum sem skrifstofa fjármálagreiningar lögreglu hefur vísað til skattrannsóknarstjóra hefur að sama skapi fjölgað.

„Eftir að þetta var eflt, og kannski einkum skrifstofa fjármálagreiningar lögreglu, þá eru að berast hingað til þessa embættis fleiri mál, fleiri tilkynningar. Þær voru, ef við tökum þetta ár og síðasta ár, nærri fjörutíu,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri. Aftur á móti bárust einungis sex tilkynningar til skattrannsóknarstjóra árið 2016. Gera má ráð fyrir að ríkissjóður verði af yfir hundrað milljóna skatttekjum af sex slíkum málum.

„Skattsvik og peningaþvætti eru nátengd og skattsvik er eitt helsta frumbrot peningaþvættis,“ segir Bryndís.

Þyrfti að skoða gögn um krónuútboð Seðlabanka betur til að taka af allan vafa

Ísland fékk falleinkunn í úttekt FATF í fyrra. Í skýrslu samtakanna segir meðal annars að stjórnvöld hafi ekki gert ráð fyrir áhrifum þess að fjármagnshöftum var aflétt árið 2017, á hættuna á peningaþvætti. Eftirlit með peningaþvætti hafi ekki verið í forgangi hjá stjórnvöldum.

Í þessu sambandi hefur mikið verið rætt um fjárfestingarleið Seðlabankans, þar sem hægt var að kaupa krónur fyrir erlendan gjaldeyri, á mun lægra verði en gengi krónunnar var á þeim tíma. „Skattrannsóknarstjóri óskaði eftir upplýsingum um þessa aðila frá Seðlabankanum, og fékk, og þetta voru að mig minnir 750 einstaklingar og ríflega 300 félög. Það voru skoðaðir nokkrir af þessum aðilum hér og aflað frekari gagna,“ segir Bryndís. Af þeim hefur skattrannsóknarstjóri eitt mál til rannsóknar. 

Bryndís segir ómögulegt að fullyrða að ekkert peningaþvætti átt sér stað gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans. „Ég held að til þess að geta sagt að svo sé ekki að þá þurfi að skoða gögnin betur.“

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Viðtal: Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri