Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gettólisti danskra stjórnvalda: Mismunun eða nauðsyn

23.01.2020 - 15:30
Mynd: Wikipedia / Wikipedia
Stefna danskra stjórnvalda er skýr. Gettóin skulu burt fyrir árið 2030. Ellefu þúsund íbúar í svokölluðum gettóum þurfa að flytja í önnur hverfi. Það á að rífa fjölda íbúða, aðrar verða gerðar upp og seldar. Gettóstefnan tók gildi árið 2018, í kjölfarið hafa verið samþykktar ýmsar lagabreytingar sem beinast einkum að innflytjendum frá Mið-Austurlöndum. Íbúum gettóanna finnst stefnan brennimerkja þá og Sameinuðu þjóðirnar segja hana fela í sér mismunun. Stjórnvöld standa þó fast á sínu.

Breytt samfélag

Fyrir fjörutíu árum var Danmörk frekar einsleitt samfélag. Innan við eitt prósent íbúa komu frá ríkjum sem ekki teljast vestræn, nú er hlutfallið komið upp í 8,5%. Stærstu hóparnir koma frá löndum þar sem meirihlutinn er íslamstrúar; svo sem Tyrklandi, Sýrlandi og Írak. Stjórnvöld í Danmörku hafa lengi aðhyllst stranga innflytjendastefnu óháð því hver er við völd. Nú hefur hælisleitendum fækkað og dregið úr atvinnuleysi meðal innflytjenda. Í ljósi þess telja stjórnvöld nú svigrúm til þess að taka á gettóunum - og þau hyggjast verja til þess háum fjárhæðum. 

Íbúar gettóanna lúta öðrum lögmálum

Mynd með færslu
 Mynd: Kim Bach/Flickr
Mjölnerparken á Norðurbrú í Kaupmannahöfn telst til gettóa.

Markmiðið Gettóstefnunnar frá 2018 er að stuðla að aukinni félagslegri blöndun og tryggja að ekki myndist einangruð hliðarsamfélög óvirkra innflytjenda sem ekki aðhyllast dönsk gildi. Kaare Dybvad, húsnæðismálaráðherra í nýrri ríkisstjórn Jafnaðarmanna, er illa við orðið gettó en hann styður stefnuna. 

Stefnan tekur sérstaklega til innflytjenda og flóttamanna sem ekki eru með vestrænan bakgrunn og afkomenda þeirra. Öll ríki sem ekki eru á Evrópska efnahagssvæðinu eða í Norður-Ameríku teljast óvestræn í bókum danskra stjórnvalda. Íbúar gettóanna lúta öðrum lögmálum en aðrir. Þeir eru skikkaðir til að senda börn sín í leikskóla fyrir eins árs aldur ella missa þeir barnabæturnar, þeir geta hlotið þyngri dóma en íbúar annarra hverfa fyrir sömu brot. Flóttamenn missa aðlögunarbætur ef þeir flytja í hverfi sem yfirvöld hafa skilgreint sem gettó og þeir sem búa í gettóunum geta ekki sótt um fjölskyldusameiningu.

Vilja tryggja börnum tækifæri og læra af mistökum fortíðar

Stjórnvöld hafa aukið sýnileika lögreglunnar í gettóunum og taka harðar á heimilisofbeldi. Þau vilja tryggja blöndun, ekki bara í hverfunum heldur líka í skólum og dagvistun ungra barna. Þannig fái öll börn sömu tækifæri óháð uppruna.

Mynd með færslu
 Mynd: Kim Bach / Flickr
Stelpur í Mjölnerparken. Mynd: Kim Bach/Flickr.

Ósátt við margt

Í stefnunni er farið yfir það sem stjórnvöldum finnst hafa farið úrskeiðis á síðstliðnum áratugum. Í fyrsta lagi hafi of margir innflytjendur brugðist þeirri skyldu sinni að aðlagast samfélaginu, læra dönsku og taka virkan þátt á vinnumarkaði. Í öðru lagi hafi stjórnvöld ekki gert nægar kröfur til innflytjenda, leyft mörgum að daga uppi á bótum árum saman. Í þriðja lagi hafi stjórnvöld ekki spornað við því að stórir hópar innflytjenda söfnuðust saman í ákveðnum hverfum og einangruðust þar - sumir án tengsla við etníska Dani og danskt samfélag. Fólk af dönskum uppruna hafi flutt burt úr þessum hverfum og það sé erfitt að laða það til baka. 

Hafa áhyggjur af vanvirkni og viðhorfum

Í stefnunni segir að margir af annarri kynslóð innflytjenda hafi plummað sig en allt of margir hafi ekki gert það, of mörg börn nái ekki góðum tökum á dönsku, þriðjungur fullorðinna í hópnum hafi verið utan vinnu eða skóla í fjögur ár af síðastliðnum fimm og glæpatíðni sé of há meðal ungra karla af annarri kynslóð, að meðaltali fremji einn af hverjum tíu lögbrot á hverju ári. Stjórnvöld hafa líka áhyggjur af gildismati innflytjenda og viðhorfum til jafnréttis kynjanna. Könnun á vegum stjórnvalda sýndi að einungis fimm af hverjum tíu konum sem ekki eru með vestrænan bakgrunn telja sig njóta jafnréttis á við karlkyns jafnaldra og 40% innflytjenda telja fjölskylduföðurinn höfuð heimilisins.

Gettólistinn tíu ára 

Í desember í fyrra birti ríkisstjórnin hinn árlega gettólista í tíunda sinn - á honum eru nú 28 hverfi um allt landið. Þeim hafði fækkað um eitt hverfi frá árinu 2018. Þrjú hverfi duttu út af listanum, tvo ný komu inn. Af gettóunum 28 teljast 15 til svokallaðra harðra gettóa, það eru svæði sem hafa komist á gettólistann fjögur ár í röð. Hverfin eru um allt landið, sex í Kaupmannahöfn, þrjú í Árósum og þrjú í Óðinsvéum, svo dæmi séu nefnd.

Mynd með færslu
 Mynd: M. Gluud - DR
Sprengjutilræði við lögreglustöð á Norðurbrú.

Frumforsendur þess að hverfi rati á gettólistann er að þar búi yfir þúsund manns og að meira en helmingur íbúa séu innflytjendur, ýmist af fyrstu eða annarri kynslóð, og frá ríkjum sem ekki teljast vestræn. Til að rata á gettólistann þurfa hverfin svo að uppfylla tvö af eftirfarandi viðbótarskilyrðum: Að hlutfall atvinnulausra sé yfir 40%; að hlutfall fullorðinna íbúa sem einungis hafa lokið grunnskóla sé hærra en 60%; að hlutfall íbúa sem hafa hlotið dóm fyrir brot á almennum hegningarlögum, vímuefnalögum eða vopnalögum, sé þrefalt hærra en almennt gerist á landsvísu; eða að meðaltekjur íbúa á aldrinum 15 til 64 ára séu undir 55% meðaltekna fólks í sömu borg eða landshluta. Þetta snýst um uppruna, menntun, atvinnuþátttöku, afbrot og tekjur. 

Öll gettóin uppfylla skilyrði um hátt hlutfall fólks sem einungis hefur lokið grunnskóla og á uppruna að rekja til landa sem ekki teljast vestræn. Í 15 hverfum er hlutfall dæmdra þrefalt hærra en á landsvísu, það er hærra en 2,03%. Á sextán svæðum af 28 er atvinnuleysi of hátt og á átta svæðum er innkoma of lág. 

Gettósvæðin eiga að breytast

Mynd með færslu
 Mynd: Sean MacEntee - Flickr
Það á að gera upp eldri íbúðir, rífa blokkir og reisa nýjar. Markmiðið er að árið 2030 verði hlutfall almennra leiguíbúða undir 40%.

Gettóhverfin eiga að verða spennandi hluti borga og bæja, ekki afskekkt, úthrópuð eða tengd hættulegum gengjum. Það á ekki að fyrirfinnast neitt hverfi í Danmörku, sem ekki er danskt, segir í framtíðarstefnu stjórnvalda. Stefnt er að því að á þessum svæðum fari hlutfall almennra leiguíbúða undir 40% fyrir árið 2030 - um ellefu þúsund íbúar verða því að flytja annað. Sums staðar verða blokkir gerðar upp, annars staðar verða fjölbýlishús rifin og byggð ný. Húsnæðisfélaganna bíður stórt verkefni - að bjóða öllum húsnæði annars staðar. 

Deilt um hvort listinn virki

Dybvad, húsnæðismálaráðherra, segir að listinn virki, til dæmis séu fleiri íbúar gettóa nú komnir í vinnu. Almenna leigufélagið Lejeboliger í hovedstaden hafnar málflutningi ráðherrans í yfirlýsingu: Gettólistinn virki ekki - listinn einn og sér hafi ekki stuðlað að því að fleiri fái vinnu eða sæki sér menntun. Það sé fyrir tilstilli almennra leigufélaga sem hverfi hafi dottið út af listanum. Félögin hafi hjálpað fólki að fá erlenda menntun metna og aðstoðað það við að fá vinnu. Í yfirlýsingunni segir að félagið sé mótfallið listanum, það vilji ekki vera neytt til þess að leigja einungis útvöldum hópum í samfélaginu og sniðganga aðra. Félögin hafa líka gagnrýnt tölurnar sem útreikningar hvers árs byggja á - en þær eru í sumum tilfellum nokkurra ára gamlar.

A cyclist rides through the snow in Copenhagen on Wednesday, March 13, 2013. (AP Photo/POLFOTO, Jens Dresling)  DENMARK OUT
 Mynd: AP - AP Photo/POLFOTO, Jens Dresling
Í Kaupmannahöfn.

„Við vitum að Rikke fær starfið“

Amina Safi, Eden Tewolde, Jawahir Yusuf og Leyla Bouazzi sitja í ungmennaráði Tingbjerg-hverfis í Kaupmannahöfn, það er eitt hverfanna á listanum. Áður en nýr gettólisti birtist í desember skoraði ráðið á húsnæðismálaráðherra að slaufa honum. Í opnu bréfi til ráðherrans sögðu ungmennin að gettóstimpilinn léti þeim líða eins og annars flokks borgurum, óvelkomnum í eigin landi. Tæplega tíu þúsund hafa skrifað undir áskorun ungmennaráðsins. Í bréfinu segir að þau geri sitt besta, sæki nám og vinnu, en viti vel að það gildi ekki það sama um þau og ungt fólk af dönskum uppruna, þau viti að Rikke fær starfið frekar en Amina og að best sé að geta þess ekki í atvinnuumsóknum að þau búi í Tingbjerg, þau segjast hafa verið kölluð apar og nýbúar á götum úti en að þau uni því og leggi enn harðar að sér. Unga fólkið segir að með listanum ýti stjórnvöld ekki undir samstöðu heldur þvert á móti. Hafið trú á okkur, hlustið á okkur, talið við okkur - í staðinn fyrir að úthúða okkur endalaust, segir ungmennaráðið í bréfinu. 

Íbúar Mjölnerparken í óvissu

Jamal Versi, mannfræðingur og fréttamaður katörsku fjölmiðlaveitunnar Al-jazeera, tók nýlega viðtöl við íbúa annars hverfis á gettólistanum, Mjölnerparken á Norðurbrú í Kaupmannahöfn. Íbúarnir hafa litla trú á stefnu stjórnvalda, telja hana til þess fallna að skaða fólk, skapa óvissu og sundrung. Stjórnvöld hyggist selja og jafnvel rífa ágætar íbúðir vegna þess að þeim sé illa við fólkið sem býr í þeim. Í stað þess að aðstoða þá íbúa sem eiga erfitt sé fólk flæmt burt og því boðið að leigja dýrari íbúðir annars staðar. Hópur íbúa sem stendur frammi fyrir því að missa leiguíbúðir sínar hafi leitað til lögfræðings og vilji láta á það reyna hvort aðgerðir stjórnvalda standist lög. 

„Enginn einn í hverfinu“

Íbúarnir sem Versi ræddi við töluðu allir um hvað þeim þykir samfélagið í hverfinu gott. Asif Mehmood, leigubílstjóri, segir að í hverfinu sé enginn einn, þar fari enginn svangur að sofa og kaupmennirnir leyfi fólki sem óvart gleymir veskinu heima að taka vörurnar og borga seinna, það ríki traust. Mehmood segir að loksins þegar hverfið sé farið að njóta vinsælda sé farið að kalla það gettó, há glæpatípni sé bara afsökun fyrir því að flæma tekjulægra fólk burt og selja eða leigja íbúðirnar á hærra verði. Líklega sé þetta bara byrjunin, fólk eigi eftir að flytja frá Kaupmannahöfn því það eigi ekki efni á húsnæði og svo verði það líklega bara hrakið úr landi eins og Inger Stojberg, fyrrverandi innflytjendamálaráðherra, vilji.

„Stjórnvöld sjálf skapað hliðarsamfélag“

Kona sem ekki vildi láta nafn síns getið segist hafa uppilfað sig sem Dana, en ekki lengur. Stjórnvöld hafi sjálf búið til hliðarsamfélag með því að tala Mjölnerparken niður og fæla fólk af dönskum uppruna frá því að flytjast þangað. Hún segir að íbúar í íbúðunum sem verða seldar fái tilboð um að flytja annað, það komi þrjár staðsetningar til greina, sé engin þeirra valin fái fólk enga aðstoð. Konan neitar að fara og er meðal þeirra sem hyggst leita réttar síns.

Mynd með færslu
 Mynd: Kim Bach / Flickr
Strákar í Mjölnerparken. Mynd: Kim Bach.

„Óttast að einhver hrindi mér fyrir lest“

Samiah Qasim er 27 ára félagsráðgjafi af annarri kynslóð innflytjenda. Foreldrar hennar komu til Danmerkur frá Palestínu. Qasim og maðurinn hennar hafa búið í Mjölnerparken í sex ár. Fjölskylda Qasim fær að búa áfram í Mjölnerparken en tengdaforeldrar hennar hafa fengið bréf um að leiguíbúð þeirra verði seld. Sjálf hefur Qasim, sem á hálfs árs dóttur, fengið bréf um að dóttir hennar þurfi að innritast í leikskóla um leið og hún verður eins árs og vera að minnsta kosti 25 klukkustundir á viku í skólanum þannig að hún læri dönsk gildi. Ef Qasim hlýðir ekki missir hún barnabæturnar. Qasim bendir á að ef hún byggi hinum megin götunnar fengi hún engin slík tilmæli - í hennar huga er þetta mismunun. Hún segir að upp á síðkastið hafi sér liðið undarlega, eins og einhver komi til með að hrinda henni fyrir lest út af höfuðklútnum, að fólk sjái hana ekki lengur sem Dana. Stjórnmálamenn hafi skapað hatur, ótta og klofning í samfélaginu og það sé ógnvekjandi. Qasim stóð nýlega fyrir viðburði í Mjölnerparken, bauð fólki sem býr annars staðar í borginni að koma og kynna sér svæðið. 

Gengjavandi og allt á móti strákunum úr hverfinu

Mynd með færslu
 Mynd: DR
Lögreglan á vettvangi gengjastríðs í Tingbjerg 2017.

Síðustu ár hefur ítrekað komið til óeirða og jafnvel skotbardaga milli gengja á Norðurbrú. Nýlega skutu ungir menn flugeldum þvers og kruss, á bíla og strætisvagna. Íbúum Mjölnerparken finnst hverfið ekki eiga gettóstimpilinn skilið en viðurkenna samt að það séu vandamál til staðar; gengjavandi, ungir karlmenn sem viti ekki hvað þeir eigi af sér að gera. Sumir að vísu úr öðrum hverfum. Konan sem ekki vildi láta nafn síns getið segir að allt virðist vera á móti ungum strákum úr hverfinu, þeim finnist þeir ekki nógu danskir, það sé talað niður til þeirra, þeir fái ekki vinnu. Vegna skorts á tækifærum leiðist sumir þeirra út á ranga braut. Samiah Qasim, félagsráðgjafinn, segir gengi hafa vaðið uppi í gamla hverfinu hennar, Blagardsgade. Þar hafi verið ráðist í aðgerðir, strákunum útveguð vinna eða starfsnám og opnuð kaffihús og verslanir - þeir hafi haft öðrum hnöppum að hneppa og síður leiðst út í gengjastarfsemi. Quasim segir að með nýju lögunum sendi stjórnvöld ungum krökkum í Mjölnersparken neikvæð skilaboð, að þau séu ekki nógu góð, að þau þurfi að leggja sig meira fram en önnur börn til að vera samþykkt af samfélaginu. Asif Mehmodd, leigubílstjóri, segir að sé glæpatíðnin há þurfi að laga það en ekki með því að úthýsa fólki. Þá fullyrðir hann að í Allerod sé glæpatíðnin hærri en í Mjölnerparken en það skipti stjórnvöld engu, því flestir íbúar í Allerod séu hvítir.

Rapparinn Jamaika ólst upp í Finlandsparken-hverfinu í Vejle. Hverfi sem lengi hefur verið á Gettólistanum. Hann hefur setið í fangelsi stóran hluta unglingsáranna en einbeitir sér nú að tónlist. 

Telur sig fá sérmeðferð

Lisbeth Saugmann, býr í húsnæði fyrir eldri borgara og hún á að flytja. Hún er hamingjusöm í hverfinu, segist kunna vel við fjölbreytileikann. Saugmann er leikskólakennari og hefur áður búið í félagslegu húsnæði, hún segir að þar hafi flestir verið af dönskum uppruna en að vandamálin hafi verið af sama meiði. Stjórnvöld hafi gripið inn í og boðið ýmis úrræði en nú sé annað upp á teningnum. Hún og fleiri eldri borgarar hafa fengið það í gegn að fá að flytja sem hópur í annað hverfi. Hún telur að þessi liðleiki hafi eitthvað með það að gera að þau eru af dönskum uppruna, að þau fái aðra meðferð en hinir. Leigan eigi samt eftir að hækka, hún hafi áhyggjur af því hvort hún eigi eftir að hafa efni á lyfjunum sínum. 

Nauðsyn eða mismunun

Það eru skiptar skoðanir um Gettóstefnuna, sumir segja hana nauðsynlega til þess að koma í veg fyrir að önnur kynslóð innflytjenda fái fátækt og félagslega einangrun í arf. Aðrir segja aðgerðir stjórnvalda gera illt verra, ýta undir klofning, vantraust og reiði. Í október lýsti efnahags og félagsmálanefnd Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna yfir djúpstæðum áhyggjum af því að dönsk lög mismunuðu fólki á grundvelli búsetu, uppruna og félagslegrar stöðu. Það gerði ráðið líka árið 2018 þegar Gettópakkinn tók gildli. 

Mannréttindastofnun Danmerkur telur stefnuna geta ýtt undir ójöfnuð. Í skýrslu sem stofnunin skilaði til þingsins í desember segir að stefnan geri lágtekjufólki, fólki af erlendum uppruna og fólki sem framið hefur glæpi erfiðara fyrir að finna húsnæði við hæfi. Þá komi gettóstefnan ekkert inn á það hvernig útvega megi fólki húsnæði á hagstæðu verði á öðrum þéttbýlissvæðum sem ekki teljast jaðarsett. Kaare Dybvad, húsnæðismálaráðhera í nýrri ríkisstjórn ver stefuna og segir að hún njóti víðtæks stuðnings á þinginu. Eina leiðin til þess að koma í veg fyrir að hliðarsamfélög festi sig frekar í sessi sé að leysa þau upp í eitt skipti fyrir öll.