Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Geti lækkað íbúðaverð um 4-6 milljónir

07.04.2015 - 09:31
Skuggahverfið í 101 Reykjavík.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Hægt er að lækka byggingarkostnað minni íbúða um fjórar til sex milljónir króna með einföldum hætti, samkvæmt nýrri rannsókn Samtaka iðnaðarins. Þannig megi auka framboð af ódýrari íbúðum.

Samtökin hafa metið gögn um byggingarkostnað í þeim tilgangi að lækka kostnaðinn og auka framboð á smærri íbúðum, sem vöntun er á.

„Við erum þarna að skoða raunverulegar tölur um byggingarkostnað og greina hann með tilliti til þeirra þátta sem mynda kostnaðinn. Niðurstaðan er sú að það er ansi stórt hlutfall, um 30%, sem felur í sér liði sem opinberir aðilar geta haft áhrif á, til lækkunar á byggingarkostnaði,“ segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Samtökin taka dæmi af byggingu 115 fermetra íbúðar í 3-4 hæða fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu. Heildarkostnaður nemur rúmum 36 milljónum króna. Þar af fara tæpar 26 milljónir í byggingarkostnaðinn sjálfan. Tæp fjórar og hálf milljón fer í lóðina og tæpar 4 milljónir í annað, svo sem veitu-, umsýslu- og leyfisgjöld. Loks fara tæpar 2 milljónir í að uppfylla nýja byggingarreglugerð. Samtökin telja að hægt sé að lækka þennan kostnað um 4-6 milljónir króna.

„Við teljum að það sé hægt að framkvæma þetta þannig að ekki sé um tilslökun á kröfum að ræða. Þetta er auðvitað í einhverjum tilfellum lækknanir á gjöldum og að hvatinn í gjöldunum sé þannig að hann ýti undir að það séu byggðar minni íbúðir. Og hvað varðar nýlega byggingareglugerð þá er það þannig að það er augljóst mál að þar má einfalda án þess að það bitni á eðlilegum kröfum um gæði og öryggi,“ segir Almar og bætir því við að þetta geti verið mjög skjótvirk aðgerð sem auki framboð á ódýrari íbúðum. Nú sé verið að byggja of fáar og of dýrar eignir á höfuðborgarsvæðinu. Samtökin ætla að taka málið upp við stjórnvöld.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, lagði nýverið fram tvö af fjórum húsnæðismálafrumvörpum sínum á Alþingi.

„Það er alveg ljóst að með þessum frumvörpum er ætlað að ná því markmiði að auðvelda fólki að leigja eða eftir atvikum kaupa húsnæði. Og við erum með okkar rannsókn að sýna fram á að byggingarkostnaður getur lækkað marktækt. Og auðvitað er það innlegg í þá umræðu að flýta þeirri þróun að yngra fólk geti keypt húsnæði við hæfi,“ segir Almar.