Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Geta hitt lækni í læstu herbergi á bókasafni

Mynd með færslu
 Mynd:
Fjarheilbrigðisþjónusta getur sparað tíma og peninga og auðveldað aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Hún er þó ekki án vandkvæða. Það þarf að leysa ýmis vandamál áður en hægt er að hitta lækninn á netinu eða fá lyfin send á planið fyrir utan kaupfélagið með dróna. 

Kominn vísir að fjarheilbrigðisþjónustu 

Þú átt myndspjall við lækninn á netinu í stað þess að fara á heilsugæsluna eða göngudeild spítalans, pantar tímann á netinu og endurnýjar lyfseðla þar líka, getur jafnvel fengið greiningu. Heilbrigðisstarfsmenn geta líka ráðfært sig hver við annan, þrátt fyrir fjarlægðir. Þú sparar tíma og peninga og samfélagið líka. Þetta er meginhugmyndin með rafrænni heilbrigðisþjónustu eða fjarheilbrigðisþjónustu. Hér er þegar kominn vísir að slíkri þjónustu, til dæmis er hægt að endurnýja lyfseðla og fá ráðgjöf hjúkrunarfræðings á vefsíðunni heilsuvera.is. Þegar hafa 72 þúsund manns skráð sig þar inn.  Þá hefur verið unnið mikið frumkvöðlastarf á Kirkjubæjarklaustri. Ingi Steinar Ingason sem fer fyrir Miðstöð rafrænnar sjúkraskrár hjá embætti Landlæknis segir þó að við séum ekki komin jafn langt og mörg önnur lönd.

Mikil reynsla á Lapplandi

Hann kynnti sér nýlega aðstæður nyrst í Svíþjóð, á Lapplandi. Ferðin var liður í norrænu verkefni sem gengur út á að miðla reynslu milli landa. „Það sem við sáum þarna úti í Lapplandi, þar eru menn búnir að vera að stunda svona fjarviðtöl mjög lengi, það er kannski heilsugæslustöð í einum bænum sem er sá stærsti á ákveðnu svæði og síðan eru menn bara að tala við sjúklinga á öðrum stöðum. Þá er svona viðtalsherbergi í litlu þorpi, til dæmis á bókasafninu eða í verslun. Fólk átti pantaðan tíma, kom bara, læsti að sér og var í fjarviðtali. Það var þónokkuð um þetta þar."

Óljóst hvort drónar geta fært fólki lyf á Íslandi?

Lagt er upp með að hægt verði að koma lyfjum til fólks með drónum. „Það var eitt sem þeir fundu út, ef þú sparar þér að keyra 200 kílómetra fram og til baka til þess að hitta lækninn og svo þarftu lyf og það er ekkert apótek í bænum þínum þá þurfirðu náttúrulega að keyra samt og sparnaðurinn var þá í raun farinn. Þarna nyrst í Svíþjóð hafa þeir því verið að þróa dróna sem fljúga þá með lyfin og það lendir þá væntanlega bara á einhverjum palli fyrir utan kaupfélagið og menn sækja sín lyf. Þetta þurfa að vera mjög hraðfleygir drónar því þetta eru langar vegalengdir. Ég veit ekki alveg hvort þeir myndu virka í rokinu um miðjan vetur á Íslandi, snjókomu og öllu en það verður gaman að fylgjast með þeim í þessu.“

Líka fyrir íbúa stærra þéttbýlis

Mynd með færslu
 Mynd: ?? - ruv.is

En fjarheilbrigðisþjónusta hentar ekki bara þeim sem búa á afskekktum svæðum. Hér á landi er líka horft til þess að fólk búsett á höfuðborgarsvæðinu geti sparað sér komur á göngudeild, Landspítalans, til dæmis, og hitt heilbrigðisstarfsmann á netinu, að því gefnu að ekki þurfi að fara fram einhver skoðun. Fjarheilbrigðisþjónusta hefur verið til lengi í vissum skilningi, símatímar eru dæmi en þjónustu gegnum netið fylgja nýjar áskoranir. 

Alls ekki í lagi að hitta lækninn á Skype

Miðstöð um rafræna sjúkraskrá lagði nýlega lokahönd á viðmið um upplýsingaöryggi í rafrænni heilbrigðisþjónustu sem ráðherra á eftir að samþykkja. Myndviðtöl geta nefnilega ekki verið hvernig sem er þau þurfa að uppfylla lög og reglur, til dæmis um persónuvernd. Læknar verða að geta gengið úr skugga um að sjúklingarnir geti ekki villt á sér heimildir og þeir geta ekki talað við sjúklingana á Skype, Facebook eða álíka miðlum. „Þú getur ekkert treyst þeim og oftast er smáa letrið þannig að maður les eins og bara á Facebook, maður les þessar þúsund blaðsíður af smáu letri þar og þá má sá aðili gera allt sem honum sýnist með þau gögn sem verða til í hans lausn, svoleiðis lausnir eru bara ekki valmöguleiki í þessu. Það þarf að byggja upp mjög traustar lausnir þar sem er búið að meta áhættu, það þarf að verjast hökkurum og svo þarf að tryggja að sjúklingurinn sé sá sem hann segist vera, ég gæti alveg búið til Facebook-aðgang með einhverju allt öðru nafni og þóst vera einhver annar ef það ætti að fara að leyfa eitthvað slíkt." 

Hann segir að það hafi víða verið þróaðar lausnir en þær hafi ekki náð útbreiðslu, það er ekki orðið að stærri lausnum sem hægt væri að nota um allan heim. Þá segist hann því miður hafa heyrt að það séu dæmi um að læknar noti Facebook eða Skype í samskiptum við sjúklinga. Það sé einfaldlega ekki boðlegt.

Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com

Gulrót í boði fyrir tækniglaða lækna

Í síðustu viku fjallaði norska ríkisútvarpið um nýja skýrslu Landlæknisembættisins þar í landi og embættis um rafræna heilbrigðisþjónustu. Þar er lagt til að fyrstu þúsund heimilislæknarnir sem bjóða sjúklingum upp á læknisviðtöl í gegnum myndspjall á netinu fái gulrót, tíu þúsund norskar eða tæplega 150 þúsund kall. Heilbrigðisráðherrann er mjög spenntur fyrir þessum valmöguleika.

Telja bresk stjórnvöld full bjartsýn

Í Bretlandi eru líka uppi stór áform um að auka vægi rafrænnar heilbrigðisþjónustu. Breska heilbrigðisþjónustan, NHS, kynnti fyrr í þessum mánuði áætlun um að árið 2024 fari þriðjungur viðtala sem heilbrigðisstarfsmenn á sjúkrahúsum eiga við sjúklinga sem ekki liggja inni fram á netinu. Markmiðið er að auka þægindi, spara peninga og gefa starfsmönnum meiri tíma til að sinna öðrum verkefnum. Í grein tveggja fræðimanna, Trish Greenhalgh og Shanti Vijayaraghavan, í vefritinu Conversation, segir þó að það sé full mikil bjartsýni að ætla að ná þessum árangri á fimm árum. Það sé margt gott við aukna netþjónustu en það standi líka margt í vegi fyrir henni, óöryggi, vani og svo ýmis tæknileg og lagaleg úrlausnarefni. 

Litlar framfarir í Noregi

Fræðimennirnir nefna að Noregur hafi árið 2009 farið af stað með fimm ára verkefni sem miðaði að því að gera fólki kleift að ráðfæra sig við heilbrigðisstarfsfólk á sjúkrahúsum í gegnum netið. Þrír fjórðu hlutar spítala í Noregi tóku þátt í verkefninu sem kostaði sitt. Samt sem áður leiddi rannsókn í ljós að fjórum árum síðar, árið 2013 fór einungis 2% ráðgjafarsamtala við sjúklinga utan sjúkrahúss fram á netinu.

Umdeild á Norðurlöndum 

Sum tegund fjarþjónustu er umdeild, svo sem  þjónusta einkafyrirtækja sem bjóða hverjum sem er upp á heilbrigðisþjónustu vegna tilfallandi veikinda eða áverka. Formaður félags heimilislækna á Íslandi segir þá þjónustu ólíka fjarþjónustu heimilislækna sem þekkja sjúklinginn. Síðustu ár hafa mörg fyrirtæki sem bjóða upp á læknisviðtöl og ráðgjöf á netinu skotið upp kollinum í Noregi. Á vef NRK segir að í fyrra hafi yfirvöld gripið inn í starfsemi netlæknamiðstöðvarinnar Kry.  Læknar þar á bæ höfðu skrifað upp á viku vottorð eftir stutt myndspjall við sjúklinga, Tryggingastofnunin Nav taldi þetta brjóta í bága við lög.  Þá fjallaði NRK nýlega um hvernig fyrirtækin hagnast á hægagangi almenna kerfisins, því að fólk þurfi að bíða í rúma fimm daga eftir tíma hjá lækni.

Viðmælendur Spegilsins segja mikið hafa verið rætt um gæði þessarar netþjónustu og hvort það megi treysta henni. 

Netviðtöl geti verið valdeflandi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þau Greenhalgh og Vijayaraghavan segja að sjúklingar séu almennt hrifnir af netviðtölum, þetta sýni rannsóknir, þær sýni líka að hægt sé að halda í öryggi og gæði, sé vandamálið þess eðlis að læknirinn þurfi ekki að skoða sjúklinginn sérstaklega. Rannsóknir þeirra sjálfra benda til þess að netviðtöl geti verið valdeflandi fyrir sjúklinga, þeim líði betur heima hjá sér í sínu umhverfi og séu öruggari með sig, líklegri til að andmæla heilbrigðisstarfsmanninum eða gera athugasemdir. Sjúklingurinn þarf ekki að fara neitt, þarf ekki að greiða fyrir bílastæði eða bíða á biðstofu. Læknar fá meiri tíma til að sinna öðru, stjórnunarkostnaður lækkar, það er minni þörf á upphitun og það þarf ekki að þvo eins mikið, þá er ekki þörf á jafn mörgum læknastofum. 

Vaninn hluti vandans

En hvert er vandamálið, þau nefna ótta bæði lækna og sjúklinga við breytingar og óöryggi um hvernig skuli haga sér í nýjum aðstæðum,  þá séu þeir sem mesta þörf hafa fyrir heilbrigðisþjónustu oft eldri, fátækari, með minni menntun, minni tæknikunnáttu og ólíklegri til að vera með góða nettengingu heima og ólíklegri til að tala reiprennandi ensku en meðalbretinn. Allir þessir þættir geri fólk ragara til að vilja prófa netviðtöl. Svo er það vaninn, fólk og læknar hafi vanist öðru og geti upplifað öryggisleysi, þá þurfi að huga að því að óprúttnir geti ekki hakkað samskipti lækna við sjúklinga. Startkostnaðurinn við að koma kerfinu á koppinn geti reynst umtalsverður.

Þurfi ekki að þeyta læknum á milli staða

Ingi segir rétt að aukin fjarheilbrigðisþjónusta kalli á innviði og skipulag. „Ef við erum að tala um þetta út frá hlið sjúklingsins þá er þetta klárlega tímasparnaður fyrir hann, ef hann þarf ekki að fljúga landshorna á milli eða jafnvel bara innanbæjar, að þurfa ekki á heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Það er líka möguleiki á því að spara tíma lækna og heilbrigðisstarfsmanna sem eru að fara út á land eru hálfan dag á Akranesi, hálfan dag á Selfossi og eitthvað slíkt. Það er þá kannski ekki alveg jafn mikil þörf fyrir það sé verið að þeyta þeim út um allt. Hins vegar er alveg rétt að það þarf að byggja upp mikla innviði í þessu og það þarf að setja upp skipulag, þetta er ekki bara tæknilegt verkefni heldur líka verkefni sem snýr að því að tryggja aðgengi að sérfræðingum á milli stofnana.“

Ingi nefnir líka lagaumhverfið. Það er núna þannig að það er ekki heimilt að   rukka fyrir viðtal við sérfræðing á stofu  nema sjúklingurinn mæti á stofuna. Það væri því lítið upp úr netviðtölum að hafa, sérfræðingurinn gæti ekki rukkað fyrir þau. „Það er ýmislegt svona sem þarf að huga að en ég held í rauninni að sé þetta rétt gert sé mjög mikill möguleiki á að bæta þjónustuna, spara sjúklingum tíma og eflaust hægt að spara heilbrigðiskerfinu líka."

Ingi telur að tækifærin séu mest í eftirliti, eftirfylgni og ráðgjöf við fólk sem þjáist af langvarandi sjúkdómum. „Við erum að tala um háþrýsting, sykursýki, þunglyndi og ýmsa svona hluti sem þarf langtímaeftirlit og stuðning og það í rauninni komi þá til með að létta öllum dálítið lífið og bæta í rauninni eftirfylgnina."

Vonar að Svandís staðfesti fyrirmælin í vikunni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Ingi vonar að Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, staðfesti fyrirmæli Landlæknisembættisins um upplýsingaöryggi í fjarheilbrigðisþjónustu í  þessari viku. „Þau eru í raun til þess að það viti allir hverjar leikreglurnar eru og geti þá farið að hlaupa af stað án þess að enda einhvers staðar úti í skurði.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV