Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Geta ekki lánað land undir vegi

08.04.2015 - 14:04
Mynd með færslu
 Mynd: Unsplash
Landeigendur geta ekki veitt Vegagerðinni ótakmörkuð afnot af landi til að sleppa við eignarnám lands undir vegstæði. Þetta leiðir af nýlegum dómi Hæstaréttar sem hafnaði kröfu landeiganda um ógildingu eignarnáms.

Í maí 2011 tók Vegagerðin rúmlega tveggja hektara landspildu eignarnámi á jörðinni Hjarðarhaga í Jökuldal. Landið fór undir um 540 metra af þjóðvegi eitt, áningarstað og brú yfir Ysta-Rjúkanda. Eigandi jarðarinnar var ekki mótfallinn framkvæmdunum en vildi láta reyna á hvort komast mætti hjá því að Vegagerðin eignaðist landræmuna sem var 40 metra breið. Landeigandi taldi meðal annars að heimild til eignatöku í Vegalögum væri andstæð stjórnarskrá og almenningsþörf kallaði ekki á slíkt. Vegagerðin hefði farið fram úr meðalhófi enda bauð landeigandi ótakmörkuð afnot af landinu endurgjaldslaust.

Héraðsdómur hafnaði þessu og benti á að löggjafinn vildi að Vegagerðin fengi eignarrétt yfir vegsvæði ekki afnotarétt. Óásættanlegt væri að umráð væru í óvissu ef gera þyrfti lagfæringar. Meðalhófs hefði verið gætt enda tryggt að landeigandi héldi öllum vatns- og veiðiréttindum. Landeigandinn fór með málið fyrir Hæstarétt sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms og benti ennfremur á að landeigandi hefði ekki rökstutt þörf fyrir að eiga áfram landið undir veginum. Vegagerðin var talin hafa sýnt fram á að staða mannvirkjanna væri tryggari ef hún færi með beinan eignarrétt. Þannig yrðu almannahagsmunir ekki tryggðir nema með eignarnámi og aðkomu matsnefndar eignarnámsbóta.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV