Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Geta ekki haft annan hatt erlendis en heima“

13.11.2019 - 10:25
Mynd með færslu
 Mynd:
„Ég er auðvitað í sjokki eins og flestir landsmenn yfir þessu og þetta er grafalvarlegt mál ef satt reynist, að íslenskt fyrirtæki hagi sér svona gagnvart þjóð sem við höfum verið að aðstoða í þróunarmálum,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður atvinnuveganefndar Alþingis.

Gögn WikiLeaks sem Kveikur fjallaði um í gær sýna að Samherji hefur greitt háttsettum stjórnmála- og embættismönnum í Namibíu hundruð milljóna króna síðustu ár til að komast yfir eftirsóttan fiskveiðikvóta.

„Þetta er auðvitað eitthvað sem þarf að rannsaka algjörlega ofan í kjölinn. Ég get auðvitað ekki sest í dómarasæti fyrir fram en það bendir margt til þess að þarna sé maðkur í mysunni og þarna hafi menn farið langt út fyrir lög og reglur. Menn geta ekki haft einhvern annan hatt erlendis en hérna heima,“ segir Lilja Rafney sem fagnar að málið sé komið inn á borð Héraðssaksóknara.

Lilja Rafney er ekki búin að ákveða hvort málið verður tekið fyrir í atvinnuveganefnd. „Ég held að þetta bæti ekki málið að taka þetta inn á fund atvinnuveganefndar svona í upphafi þess að þessar fréttir eru í gerjun og meira á eftir að koma í ljós.“

Finnst þér við vera með nógu góðar varnir gegn því að fyrirtæki geti komist upp með svona vinnubrögð? „Hvernig við getum haft eftirlit með fyrirtækjum sem starfa erlendis er kannski mjög erfitt. Það þarf að styrkja alþjóðlegt samstarf sem best því að þetta er auðvitað ekki boðlegt ríkum þjóðum að fyrirtæki hjá þeim séu að haga sér svona gagnvart þeirra minnstu bræðrum.“

Samherji firrir sig ábyrgð

Í yfirlýsingu frá Samherja sem var birt eftir Kveiksþáttinn í gær vísar Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, ábyrgðinni á Jóhannes Stefánsson. Þorsteinn Már segir í tilkynningunni að honum sé brugðið og að hann kannist ekki við vinnubrögðin sem Jóhannes lýsir í þættinum. Samkvæmt upplýsingum WikiLeaks og Kveiks héldu greiðslur til stjórnmála- og embættismanna í Namibíu áfram eftir að Jóhannes hætti stöfrum hjá Samherja árið 2016.  

Uppfjöllun Kveiks og Stundarinnar í gær var fyrri hluti umfjöllunar um málið. Seinni hlutinn verður í Al Jazeera eftir nokkrar vikur.

Mynd með færslu
 Mynd: Samherjaskjölin - Wikileaks
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV