Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Geta ekki brugðist við ólöglegri útleigu

Atvinnuhúsnæði með íbúðum. Mynd úr safni. - Mynd: RÚV / RÚV
Heilbrigðiseftirlitið getur ekki knúið þá sem leigja út ólöglegt húsnæði til þess að tryggja íbúum lágmarkshreinlætisaðstöðu. Það þýðir ekki að kæra eigendur því regluverkið er ófullnægjandi og engin viðurlög við brotum. Þetta segir framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis. Stofnunin fór þess á leit við stjórnvöld árið 2013 að úr þessu yrði bætt en ekkert breyttist.

 

 

 

„Við hefðum viljað hafa regluverkið miklu skýrara því það er ekki boðlegt fyrir okkar samfélag að fólk þurfi að búa langtímum saman við mjög frumstæðar aðstæður þegar við erum búin að byggja upp okkar samfélag, núna áratugum saman, með góðu íbúðarhúsnæði, góðri hreinlætisaðstöðu, góðum gluggum og loftræstingu, að svo skuli verið að leita uppi afgangshúsnæði fyrir þá sem eiga kannski eitthvað erfiðara uppdráttar. Þetta eigum við mjög erfitt með að sætta okkur við," segir Guðmundur. „ Við myndum vilja að sá sem ætti húsnæðið og leigir það til íbúðar væri ábyrgur fyrir því að hafa húsnæðið í lagi, frá hollustuháttasjónarmiðum."

4000 í ósamþykktu húsnæði

Slökkviliðið telur að hátt í fjögur þúsund manns búi í ósamþykktu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þar af 860 börn. Ósamþykktum íbúðum hefur fjölgað mest í Hafnarfirði, þær eru þrefalt fleiri en árið 2008 og hefur fjölgað um 65% frá árinu 2016. Skekkjumörkin eru há en slökkviliðið telur tölurnar veita ákveðnar vísbendingar um umfang vandans. Þessi híbýli eru afar misjöfn, stundum eru þau vistleg og örugg, uppfylla bara ekki kröfur byggingafulltrúa. Stundum eru hollustuhættir í lagi en brunavarnir í ólagi, stundum er það öfugt og stundum eru þetta einfaldlega óheilnæmar dauðagildrur. 

Vill kanna hvort tölur slökkviliðsins standist skoðun

Slökkviliðið kortlagði ósamþykkta búsetu á höfuðborgarsvæðinu núna í vor, kannaði ummerki um búsetu í iðnaðarhverfum, svo sem; sorp, gardínur eða ljós í glugga seint um kvöld. Slökkviliðið áætlaði líka fjölda íbúa í ólöglegu húsnæði út frá því hversu margir voru skráðir með lögheimili í slíku húsnæði eða skráðir þar til heimilis á já.is. Gert var ráð fyrir því að óskráðir íbúar væru jafnmargir og þeir skráðu. 

Árdís Ármannsdóttir, samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir að kanna þurfi betur hvort mat slökkviliðsins eigi við rök að styðjast og hvort skráningin gæti að einhverju leyti verið úrelt, lögheimilisskráning sé ekki óskeikul.

 

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Hafnarfjörður.

 

Segir að það skorti vilja

Í reglugerð um hollustuhætti og mengunarvarnir segir að óheimilt sé að leigja út húsnæði sem ekki hefur hlotið samþykki byggingarnefndar. Þá megi ekki leigja út húsnæði sem stefni heilsu manna í hættu. Sumarið 2013 vakti heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar og Kópavogsbæjar athygli umhverfis- og auðlindaráðuneytis á að því þætti regluverkið ófullnægjandi. Nefndin sagði mikilvægt að herða ákvæði sakamálalöggjafar þannig að hægt væri að skikka eigendur húsnæðis til þess að ráðast í þær breytingar sem þarf til þess að það uppfylli kröfur um hollustuhætti. „Við höfum ekki séð nein áþreifanleg viðbrögð, það er enginn ósammála okkur en það bara gerist ekkert, til þess þarf vilja," segir Guðmundur. 

Ráðuneytið gat ekki svarað spurningum Spegilsins í dag þar sem þeir sem til þekkja voru ekki við. 

Dæmi um að eigendur nýti sér neyð

Í bókun heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðarbæjar frá sumrinu 2013 segir: „Í eftirliti með íbúðarhúsnæði verður að taka fullt tillit til persónulegra réttinda fólks og einkalífs. Því verður regluverkið að beinast að eigendum fasteigna og rekstraraðilum húsnæðis sem leigja út herbergin og herbergiskytrurnar. Aðkoma heilbrigðisnefndar hefur sýnt fram á að í sumum tilfellum eru aðilar að nýta sér neyð. Í málum sem upp koma og tengjast búsetu í atvinnuhúsnæði verður heilbrigðiseftirlitið oft að beita matskenndum ákvörðunum sem hvergi hafa beina skírskotun í lög. Í slíkum tilvikum verður réttur hins almenna borgara ekki jafn rétthár hagsmunum rekstraraðila." 

Eins og neyðarskýli á hamfarasvæði

Í bókuninni segir einnig að heilbrigðiseftirlitið hafi kært til lögreglu mann sem leigði út húsnæði sem sagt var líkara neyðarskýli á hamfarasvæði en íbúðarhúsnæði. Eftirlitið hafði þá endurtekið verið kallað til vegna óviðunandi umgengni um sorp á svæðinu. Heilbrigðiseftirlitið fékk það staðfest að þarna byggju hælisleitendur og hefðu gert mánuðum saman. Eina leið þeirra til að nálgast vatn var í handlaugum í sameiginlegum salernisklefum. Fram kemur byggingaryfirvöld hafi lagt áherslu á að brunavarnir væru í lagi. Þeir sem taka á leigu slíkt húsnæði geta oft ekki borið hönd yfir höfuð sér og kvarta ekki. Svo virðist einnig sem orðið landsmenn nái ekki til erlendra borgara sem hér dvelja um lengri eða skemmri tíma. Því megi bjóða þeim verri aðstæður en öðrum," segir í bókun nefndarinnar. Guðmundur segir að aldrei hafi verið ákært í málinu. „Það er ekki útaf því að ákæruvaldið vilji hafa þetta svona heldur verður regluverkið að vera í lagi." 

Líta fyrst og fremst til öryggis íbúa

Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, segir óleyfisbúsetu viðvarandi vandamál í Reykjavík. Hún segir að fyrst og fremst leggi borgin áherslu á að tryggja öryggi og koma í veg fyrir að fólk búi í dauðagildrum. Fá mál tengd óleyfisbúsetu hafa komið inn á borð heilbrigðiseftirlits borgarinnar undanfarið. 

Getur bannað búsetu en gerir það ekki

Íbúar í ólöglegu húsnæði geta óskað eftir því að heilbrigðisnefnd sveitarfélagsins skoði húsakost þeirra með tilliti til hollustuhátta. Í reglum um hollustuhætti kemur fram að heilbrigðisnefnd geti bannað afnot íbúðarhúsnæðis ef hún telur það hættulegt heilsu íbúanna. Þar skuli sérstaklega tekið tillit til velferðar barna, sjúklinga og aldraðra. Þetta er sjaldan gert. Vandamálið er ekki fólkið sem flytur inn í þessar aðstæður heldur leigusalarnir, við pössum okkur að gera fólkinu ekki óleik, segir Guðmundur. Hann segir kerfið bíta í skottið á sér. Fólkið sem heilbrigðiseftirlitið á að vernda vilji ekki greina frá stöðu sinni og óski ekki eftir aðkomu þess. Eftirlitið geti lítið gert nema ábendingar berist um að barn búi í óheilnæmu húsnæði eða ef nágranni kvartar vegna sorps eða annars óþrifnaðar. 

Það er helst að Slökkviliðið grípi inn í og rými húsnæði og þá einungis ef eigendur uppfylla ekki reglur um brunavarnir. Þetta er þó ekki gert nema í ítrustu neyð og eiganda gefinn frestur til að gera úrbætur. Stundum lætur slökkviliðið heilbrigðiseftirlitið vita ef hollustuháttum er verulega ábótavant en eins og fyrr segir á heilbrigðiseftirlitið erfitt með að krefjast úrbóta. 

Ekki gripið inn í vegna barna í ólöglegu húsnæði

Ef ummerki sjást um búsetu barna eru barnaverndaryfirvöld alltaf látin vita. Árdís, samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir að fulltrúar í barnaverndarnefnd taki þá afstöðu til málsins, grípi annað hvort inn í eða ekki. Aldrei hafi komið til þess að barnaverndarnefnd Hafnarfjarðarbæjar gripi inn í slíkar aðstæður. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

 

Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, telur að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki brugðist við því með fullnægjandi hætti að hundruð barna á svæðinu búi í ólöglegu húsnæði. „Það má segja að það sé ekki, börn búa allt of oft í óviðunandi húsnæði."

Vandinn óviðráðanlegur

Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri forvarnarsviðs slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, segir að samstarf sveitarfélaga og eftirlitsaðila sé gott en vandinn sé þeim ofviða. 

„Allir aðilar standa frammi fyrir sama vandamáli og við, að við erum að reyna að berjast við einhvern topp á ísjaka sem er birtingarmynd af miklu stærra vandamáli. Það er ekkert á okkar valdi að leysa þetta," segir hann og vísar þar til vandans á húsnæðismarkaði. „Þá er ég ekki bara að tala um framboð húsnæðis heldur bara það að fólk hefur ekki efni á búsetu."

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV