Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gervöll tónlistarsagan er hlaðborð

Mynd: RÚV / RÚV

Gervöll tónlistarsagan er hlaðborð

29.08.2019 - 14:29

Höfundar

Í Klassíkinni okkar verður boðið upp á tónverk frá fjórum öldum tónlistarsögunnar, allt frá barokki til kvikmyndatónlistar. Kallað var eftir frásögnum af því hvernig tónlist hefur fléttast við minningar og ævi fólks. „Þetta er eiginlega eins og óskalagadagskrá. Frásagnirnar tengjast lögunum sem rötuðu í efnisskrána,“ segir Halla Oddný Magnúsdóttir.

Tónleikarnir Klassíkin okkar verða haldnir í fjórða sinn annað kvöld, föstudaginn 30. ágúst. Í þetta sinn er yfirskrift efnisskrárinnar „Tónlistarsagan þín“, þar sem kallað var eftir sögum af því hvernig sígild tónverk hafa haft áhrif á Íslendinga. Tónleikarnir eru samstarf Sinfóníuhljómsveitar Íslands og RÚV.

„Það er kannski svolítið vítt safnheiti,“ segir Guðni Tómasson, sem ásamt Höllu Oddnýju Magnúsdóttur kynnir verkin sem flutt verða í beinni útsendingu á RÚV og Rás 1. „Við erum að velta fyrir okkur tónlistarsögunni sem slíkri auðvitað en við erum líka að velta fyrir okkur hvernig fólk umgengst tónlist í daglega lífinu. Í innslögum í útsendingunni okkar veltum við því fyrir okkur hvernig fólk er að umgangast þessa músík í daglegu lífi.“

Á tónleikunum fáum við að heyra tónlistarsögur fólks. „Hver maður á sína tónlistarsögu og margir eiga sögu af því hvernig tónlist hefur mótað líf þeirra eða fléttast inn í mikilvægustu augnablikin á ævi þeirra og litað minningar og atvik,“ segir Halla Oddný.

Þó ekki verði hnikað við efnisskránni svo nálægt tónleikadeginum sjálfum þá vilja þau hvetja áhorfendur og hlustendur til halda áfram að deila sínum eigin tónlistarsögum.  „Okkur langar svo að heyra fleiri sögur og notum samfélagsmiðlana til þess. Þá notum við myllumerkið #klassikin og þar viljum við heyra bæði skoðanir fólks á dagskránni, hvernig áhrif þetta hefur heima í stofu, og líka allar þessar fallegu sögur sem eru til á bak við klassíska músík,“ segir Guðni. Hægt verður að fylgjast með nýjum tónlistarsögum verða til meðan á útsendingunni stendur á menningarvef RÚV – www.ruvmenning.is.

„Þetta er músík frá fjórum öldum tónlistarsögunnar, alveg frá barokki og nánast til okkar dags,“ segir Guðni. „Þetta er mjög fjölbreytt, kemur úr ballett, sálumessum, óperum og kvikmyndum.“

Vakning þegar kemur að klassískri tónlist

Það mætti halda því fram að klassísk tónlist hafi aldrei verið vinsælli. Aðgengi að tónlist hefur stóraukist með tilkomu streymiveitna og hefur það síður en svo eingöngu haft áhrif á samtímatónlist. „Allir þessir katalógar sem eru komnir inn á netið með góðum upptökum eru að skapa nýja vakningu í ást manna á klassískri tónlist,“ segir Halla Oddný. „Best er að líta á gervalla tónlistarsöguna sem hlaðborð. Tíminn er svo fullkomlega afstæður í þessu, músík sem er spiluð og flutt í dag er í einhverjum skilningi nútímamúsík.“ 

Halla nefnir tiltekinn kafla í klarinettukonsert Mozarts sem dæmi. Upptaka frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands með einleik Arngunnar Árnadóttur er í dag vinsælasta upptakan á verkinu á Youtube þar sem horft hefur verið á tónleikana oftar en sex milljón sinnum. „Það voru kannski 300-400 manns sem heyrðu þetta meðan Mozart lifði – í mesta lagi.“

Kaflinn er einmitt meðal þeirra fjórtán tónverka sem flutt verða í Klassíkinni okkar 30. ágúst, í beinni útsendingu frá Eldborg klukkan 20. Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason en einnig kemur fram fjöldi einsöngvara, einleikara og kóra.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Tíu úrvalsverk í Klassíkinni okkar

Klassísk tónlist

Meira snobb í Rolling Stones en klassíkinni

Klassísk tónlist

Hver er tónlistarsagan þín?